Viðskipti innlent

IFS greining spáir 1,7% verðbólgu í febrúar

Verðbólguspá IFS greiningar fyrir febrúar hljóðar upp á hækkun vísitölu neysluverðs um 1%. Til samanburðar var hækkun vísitölunnar 1,15% (13,8% á ársgrundvelli) í febrúar 2010. Ef spáin gengur eftir, mun 12 mánaða verðbólga mælast 1,7%.

Í tilkynningu segir að verðbólga undanfarna þrjá mánuði á ársgrundvelli hækkar úr -2% í 1,7%. Hagstofan mældi vísitölu neysluverðs í síðustu viku en niðurstöðurnar verða birtar miðvikudaginn 24. febrúar n.k.

Föt og skór lækkuðu um 10% í janúar sem hafði áhrif á vísitölu neysluverðs um 0,66% til lækkunar. Útsölum er að mestu leyti lokið og reiknum við með að stór hluti útsöluáhrifanna gangi til baka í febrúar (vísitöluáhrif: +0,57%).

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár hefur fermetraverð lækkað um 0,7% síðustu þrjá mánuði, aðallega vegna mikillar lækkunar í desember (vísitöluáhrif: -0,08).

Verð á bensíni hefur hækkað um 1,89% og dísel um 1,37% frá síðustu mælingu (samtals vísitöluáhrif: +0,12). Flugfargjöld í utanlandsflugi lækkuðu um 15% í janúar og gerum við ráð fyrir að sú lækkun gangi til baka að hluta (vísitöluáhrif: +0,06).

Mánaðarleg verðmæling IFS bendir til 1,7% hækkunar á verði matarkörfunnar (vísitöluáhrif: +0,27%) eftir að hafa hækkað um 1,4% í janúar. Mæling á verði matarkörfunnar er framkvæmd á ákveðnum vörum sem nær ávallt eru til sölu og svo virðist sem að þær hafi hækkað í verði frá því í desember.

„Við gerum ráð fyrir að afgangurinn af útsöluáhrifunum gangi til baka í mars og að verðbólgan verði um 0,4%. Í apríl er lítill sjáanlegur verðbólguþrýstingur en við reiknum með um 0,2% verðbólgu þá," segir í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×