Viðskipti innlent

Samherji kaupir eignir þrotabús Faroe Seafood

Samherji ásamt dótturfélagi sínu Framherja í Færeyjum og færeyska útgerðarfélagið Varðin í Götu hafa keypt fjórar fiskvinnslustöðvar og sex togara af þrotabúi Faroe Seafood. Það var stærsta útgerðarfélag Færeyja, en varð nýverið gjaldþrota.

Kaupverð er ekki gefið upp en færeyskir miðlar greina frá því að nýir eigendur taki við eignunum eftir helgi og stefnt sé að því að koma veiðum og vinnslu af stað sem fyrst. Samherji og dótturfélög hans hafa að undanförnu keypt þrjú önnur sjávarútvegsfyrirtæki í útlöndum.

Á vefsíðunni portal.fo er greint frá því að Anfinn Olsen framkvæmdastjóri Framherja, annars dótturfélagsins, reikni með að eignaskiptin fari fram á mánudag.

Samherji hefur stundað útgerð og fiskvinnslu í Færeyjum frá árinu 1994 þegar Framherji var stofnaður. Þar að auki keypti Samherji hlut í frystihúsinu Bergfrost í Fuglafirði árið 2003.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×