Handbolti

Króatar fóru illa með Argentínumenn - Svíar unnu Serba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blazenko Lackovic skoraði sex mörk fyrir Króata.
Blazenko Lackovic skoraði sex mörk fyrir Króata. Mynd/AFP

Króatía vann 18 marka sigur á Argentínumönnum, 36-18, í fyrsta leik liðanna í hinum milliriðlinum á HM í handbolta í dag. Svíar unnu 28-24 sigur á Serbum á sama tíma og eru því komnir með fjögur stig eins og Danir sem spila seinna í kvöld.

Króatar skoruðu fjögur fyrstu mörkin á móti Argentínu, voru komnir í 11-2 eftir aðeins sextán mínútna leik og í 15-3 eftir 22 mínútur. Króatía var síðan 19-6 yfir í hálfleik og og sigurinn var því aldrei í hættu.

Króatíska liðið bætti í á lokamínútunum og skoraði þá meðal annars sjö mörk í röð sem þýddi að í lokin skildu 18 mörk liðin af.

Vedran Zrnic og Denis Buntic skoruðu sjö mörk fyrir Króatíu og Blazenko Lackovic var með 6 mörk. Sebastian Simonet skoraði 4 mörk fyrir Argentínu.

Svíar eru komnir með fjögur stig eftir 28-24 sigur á Serbum. Svíar voru einu marki undir í hálfleik á móti Serbum (12-13) sem skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiksins. Svíar skoruðu þá þrjú mörk í röð og næstu mínútur voru æsispennandi þar sem liðið skiptust á að hafa forustuna.

Svíar lögðu grunninn að sigrinum með því að vinna níu mínútna kafla frá 48. til 57. mínútu sem þeir unnu 7-1 og breyttu stöðunni úr 20-19 fyrir Serba í 26-21 fyrir Svía.

Kim Ekdahl Du Rietz og Oscar Carlén skoruðu öll sjö mörkin á þessum kafla. Kim Ekdahl Du Rietz skoraði alls sex mörk í leiknum eins og Niclas Ekberg en Carlén var með fimm mörk.

Mattias Andersson byrjaði í marki Svía en varði ekki skot. Johan Sjöstrand kom sterkur inn og varði alls 15 skot og 48 prósent skota sem komu á hann. Marko Vujin skoraði átta mörk fyrir Serba en Momir Ilic var með fimm mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×