Viðskipti innlent

Hringdu, nýtt fjarskiptafyrirtæki, tekur formlega til starfa

Þeir Játvarður og Davíð eru bjartsýnir á framtíðina og telja að Hringdu eigi fullt erindi í samkeppni við hin stóru íslensku símafyrirtæki.
Þeir Játvarður og Davíð eru bjartsýnir á framtíðina og telja að Hringdu eigi fullt erindi í samkeppni við hin stóru íslensku símafyrirtæki.

Í dag, þriðjudaginn 8. febrúar, tekur formlega til starfa nýtt fjarskiptafyrirtæki sem hlotið hefur nafnið Hringdu. Forsvarsmenn Hringdu eru tveir ungir og bjartsýnir frumkvöðlar með mikla reynslu af fjarskiptamarkaðnum sem vilja bjóða upp á ódýrari kost í fjarskiptum fyrir landsmenn.

Í tilkynningu segir að þeir telji að þeir eigi fullt erindi í samkeppni við hin stóru íslensku símafyrirtæki.

Hringdu þjónustar einstaklinga með internet og heimasíma á verði sem ekki hefur boðist hingað til. Hringdu einblínir sérstaklega á að auka samskipti Íslendinga með því að bjóða upp á ódýrustu símtöl og internettengingar á markaðnum í dag.

Hringdu er fyrirtæki sem rekið er af tveimur ungum frumkvöðlum sem heita Davíð Fannar Gunnarsson og Játvarður Jökull Ingvarsson og eru fjölskyldur þeirra einu hluthafar í félaginu. Davíð hefur mikla reynslu af fjarskiptum og hefur starfað á þeim vettvangi í nokkur ár.

Félagið hefur einsett sér í að nýta einungis nýjustu tækni í fjarskiptum og vill ekki styðjast við gömul og úreld kerfi. Með því að halda yfirbyggingunni í lágmarki getur Hringdu boðið uppá fjarskiptaþjónustu á lægra verði. Hringdu er fyrsta fjarskiptafyrirtækið til að bjóða upp á þjónustu án upphafsgjalda.

Hringdu hefur nú starfað til reynslu í rétt rúmlega mánuð og er á þessum stutta tíma komið með rúmlega 500 viðskiptavini. Hringdu hefur gengið vel að þjónusta nýja viðskiptavini sem fjölgar sífellt og er almenn ánægja með að fá nýtt og óháð fyrirtæki á fjarskiptamarkað.

Hringdu er partur af íslenska talsímanetinu og með því að nýta sér dreifikerfi Símans getur Hringdu boðið upp á internet og símaþjónustu alls staðar á landinu frá fyrsta degi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×