Viðskipti innlent

Hannes fékk ekki krónu

Magnús Halldórsson skrifar
Hannes Smárason fjárfestir á nú í deilum við þrotabú Landsbankans vegna kröfu hans upp á ríflega milljarða í búið. Slitastjórnin hafnaði kröfunni, sem Hannes telur að sé forgangskrafa sem eigi að samþykkja.
Hannes Smárason fjárfestir á nú í deilum við þrotabú Landsbankans vegna kröfu hans upp á ríflega milljarða í búið. Slitastjórnin hafnaði kröfunni, sem Hannes telur að sé forgangskrafa sem eigi að samþykkja.
Hannes Smárason, fjárfestir, er ekki einn þeirra sem hafa fengið greitt fé inn á eigin reikning úr þrotabúi Landsbankans, eins og lesa mátti um á forsíðu Morgunblaðsins í morgun, og ýmsir vefmiðlar hafa vitnað til í dag.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi slitastjórnar Landsbankans, segir að krafa Hannesar í bú bankans, upp á ríflega 1,1 milljarð króna, hafi verið hafnað af slitastjórn en málið væri nú í ágreiningi fyrir dómstólum þar sem Hannes freistar þess að fá kröfuna samþykkta sem forgangskröfu. Á meðan væri greitt inn á geymslureikning í samræmi við lög, vegna fyrrnefndrar kröfu sem hann hefur lýst í búið.

Hannes hefur því ekki fengið krónu greidda út úr búi bankans inn á eigin reikning til ráðstöfunar.

Eins og greint var frá í gær hefur slitastjórn Landsbankans greitt út jafnvirði um 432 milljarða króna, um þriðjung af heildarfjárhæð samþykktra forgangskrafna í búið, til kröfuhafa og inn á geymslureikninga. Greitt var út í evrum, pundum, dollurum og íslenskum krónum.

Slitastjórn Landsbankans hefur þegar gefið út að hún telji nægar eigur í búi bankans til þess að greiða forgangskröfur að fullu, upp á ríflega 1.300 milljarða, en gera má ráð fyrir að það taki töluverðan tíma að slíta búinu og greiða út til kröfuhafa það sem í því verður. Meðal stórra eigna sem Landsbankinn vinnur nú að sölu á er verslunarkeðjan Iceland Foods í Bretlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×