Viðskipti innlent

Hafnarfjarðarbær semur um erlend lán

Guðmundur Rúnar árnason
Guðmundur Rúnar árnason
StjórnsýslaHafnarfjarðarbær hefur samið við þýsku fjármálastofnanirnar DEPFA ACS og FMS Wertmanagement um framlengingu á erlendum lánum sveitarfélagsins. Samkomulagið nær yfir 13 milljarða af skuldum Hafnarfjarðar. Þar af voru 4,3 milljarðar á gjalddaga í apríl síðastliðnum og 5,5 milljarðar á gjalddaga í janúar á næsta ári. Skuldir bæjarins voru um síðustu áramót rúmir 30 milljarðar króna, sem jafngildir 243 prósentum af tekjum bæjarins í fyrra. „Þetta samkomulag hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir bæinn því þetta eyðir þeirri óvissu sem við höfum búið við. Þetta setur afborgunarferlið í þannig ramma að það rúmast vel innan þeirra fjárhagsáætlana sem við höfum gert til næstu ára,“ segir Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og bætir því við að fínt jafnvægi sé að nást í rekstur bæjarins eftir erfið ár. Samkomulagið kveður á um lán til fjögurra ára með afborgunum og greiðslu vaxta á þriggja mánaða fresti. Í tilkynningu frá bænum segir að sveitarfélagið geti vel staðið undir greiðslum af láninu. Þá leggur bærinn meðal annars óseldar en skipulagðar lóðir í bænum og skuldabréf við Alterra Power (áður Magma Energy) að veði fyrir láninu. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 var lögð fram í bæjarstjórn á miðvikudag. Stefnt er að því að rekstarniðurstaða A- og B-hluta verði samanlagt jákvæð um 156,7 milljónir. Á árinu er ráðgert að greiða niður lán að fjárhæð 1,4 milljarðar króna en áætlað veltufé samantekið frá rekstri A- og B-hluta er áætlað 1,9 milljarðar. Þá er í fjárhagsáætluninni gert ráð fyrir hóflegum hækkunum á gjaldskrá sveitarfélagsins en samkvæmt tilkynningu munu þær í flestum tilfellum aðeins fylgja verðlagsbreytingum og hækkunum á verði aðfanga og launa.- mþl





Fleiri fréttir

Sjá meira


×