Viðskipti innlent

Höfðatorg í hendur kröfuhafa

Eigandi byggingarfélagsins Eyktar hefur misst Höfðatorg ehf. til lánardrottna. Höfðatorg ehf. á Höfðatorgsbygginguna og óbyggðar lóðir þar í kring og skuldaði 23 milljarða króna um síðustu áramót.

Félagið er komið í nauðasamningaferli og munu lánardrottnar greiða atkvæði um samningana 22. desember. Íslandsbanki er þeirra langstærstur.

Pétur Guðmundsson hjá Eykt, fyrrverandi eigandi Höfðatorgs ehf., kveðst sjá eftir Höfðatorgi í samtali við Markaðinn í dag. „Þetta endaði svona. Það var mat kröfuhafa að svona væri þessu best fyrir komið. Það hefur þá bara sinn gang.“

Fyrsti áfangi Höfðatorgs var tekinn í notkun í byrjun árs 2008 og hýsir í dag fyrst og fremst ýmsa starfsemi á vegum Reykjavíkurborgar, sem leigt hefur húsnæðið af Höfðatorgi ehf. Annar áfanginn var nítján hæða turn sem var opnaður í janúar 2009. Um þrjátíu prósent af tuttugu þúsund fermetra húsnæði hans standa tóm.

Til stóð að byggja einnig 300 herbergja hótel á lóðinni og lagði Pétur hornstein að þeirri byggingu ásamt konu sinni 17. nóvember síðastliðinn, viku eftir að formlegt nauðasamningaferli um Höfðatorg ehf. hófst. - þsj

Nánar er fjallað um málið í Markaðurinn í Fréttablaðinu í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×