Fastir pennar

Stór stund á Alþingi í gær

Steinunn Stefánsdóttir skrifar
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967.“

Svo hljóðar upphaf þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem samþykkt var á Alþingi í gær. Ísland er með samþykkinu komið í hóp rúmlega 130 ríkja sem viðurkenna sjálfstæði Palestínu en er fyrst Norðurlandaríkja til að stíga þetta skref og raunar einnig fyrst gróinna vestrænna lýðræðisríkja.

Þetta var stór stund í sögu utanríkisstefnu Íslands. Dæmin sanna að hvert eitt skref skiptir máli þegar um baráttu er að ræða fyrir viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á sjálfstæði ríkis. Hlutur Íslands í sjálfstæði Eystrasaltslandanna fyrir tveimur áratugum er gott dæmi um þetta.

Það setti sannarlega svip sinn á þingfundinn í gær að einn þeirra þingmanna sem samþykktu tillöguna er upprunninn í Palestínu. Amal Tamimi er fædd og uppalin í Jerúsalem. Hún flutti til Íslands árið 1995, þá skráð án ríkisfangs. Íslenskan ríkisborgararétt fékk hún árið 2002 og situr hún á þingi sem varaþingmaður fyrir Samfylkinguna.

Það er erfitt að setja sig í spor þjóðar sem býr við viðlíka aðstæður og Palestínumenn á herteknum svæðum, í Ísrael og í nærliggjandi löndum án ríkisfangs. Kynslóð eftir kynslóð hefur lifað í algerri óvissu um framtíð sína og borgaraleg réttindi sín og barna sinna.

Nú leggja Palestínumenn upp með að ríki þeirra verði byggt upp á broti af því landsvæði sem Sameinuðu þjóðirnar lögðu til árið 1947. Þar með er rétt fram sáttahönd sem Ísraelsmenn hafa þó virt að vettugi til þessa. Ekki þarf að fjölyrða um aflsmuninn milli ríkjanna tveggja. Þess vegna er stuðningur alþjóðasamfélagsins við málstað Palestínu svo mikilvægur.

Í síðasta mánuði samþykkti UNESCO, vísinda-, mennta- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, fulla aðild Palestínu að samtökunum þrátt fyrir að sú samþykkt kosti stofnunina framlag Bandaríkjamanna til starfseminnar, en það nemur meira en fimmtungi fjárframlaga til UNESCO. Þetta er til marks um að alþjóðasamfélagið ætlar ekki lengur að láta Ísrael með stuðningi Bandaríkjanna kúga sig til þess að horfa aðgerðalaust upp á stöðug mannréttindabrot gegn Palestínumönnum. Nýtt skeið, skeið viðurkenningar og mannréttinda, fer nú vonandi í hönd í Palestínu.

Dagurinn í gær var enn ein varðan á leið Palestínu til þess að verða frjálst og fullvalda ríki. Hann var utanríkisráðherra Íslands, formanni utanríkismálanefndar, stjórnarþingmönnum og hluta stjórnarandstöðuþingmanna til sóma. Sómi þingmanna Sjálfstæðisflokks af þessu máli er þeim mun minni.

Íslendingar mega vera stoltir af stuðningi sínum við sjálfstætt ríki Palestínumanna eins og þeir hafa verið stoltir af hlut þjóðarinnar í sjálfstæði Eystrasaltslandanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×