Harmageddon

Upptökur í búgarði gítarleikara Strokes

Árni Hjörvar og félagar í The Vaccines tóku upp lag með Albert Hammond jr. gítarleikara The Strokes.
Árni Hjörvar og félagar í The Vaccines tóku upp lag með Albert Hammond jr. gítarleikara The Strokes.
The Vaccines er ein af heitustu hljómsveitum Bretlands um þessar mundir. Hljómsveitin sendir frá sér lagið Tiger Blood á næstunni en gítarleikari The Strokes stýrði upptökum á laginu. Árni Hjörvar, bassaleikari hljómsveitarinnar, er ánægður með samstarfið.

„Lagið hljómar eins og samvinna okkar og The Strokes,“ segir Árni Hjörvar Árnason, bassaleikari bresku hljómsveitarinnar The Vaccines.

Árni og félagar tóku upp lagið Tiger Blood í ágúst, en upptökum stýrði enginn annar en Albert Hammond jr., gítarleikari The Strokes. Lagið var tekið upp í búgarði Hammonds í úthverfi New York-borgar og Árni segir upplifunina hafa verið ótrúlega lífsreynslu.

„Þetta var í fyrsta skipti sem við fórum í hljóðver án þess að vera búnir að vinna allt lagið sjálfir. Við fórum með lag sem við höfðum varla spilað,“ segir Árni. „Hann fékk að leika sér eins mikið með lagið og hann gat.“

Forsaga samstarfsins er sú að Albert Hammond jr. sá The Vaccines á tónleikum í New York í maí og hafði í kjölfarið samband. „Þeir komu allir Strokes-gæjarnir, nema Julian Casablancas. Hann fer ekki á tónleika. Viku síðar sendi hann okkur póst og sagðist hafa áhuga á að vinna með okkur ef það gæfist tækifæri,“ segir Árni.

The Vaccines átti nokkrum mánuðum síðar tvo frídaga í New York. Strákarnir ákváðu því að grípa gæsina og höfðu samband við Hammond, sem tók vel á móti þeim. Árni segir hann vera búinn að koma sér vel fyrir á ekta bandarískum búgarði á fallegri landareign í úthverfi Stóra eplisins.

„Þetta voru bestu frídagar sem við gátum mögulega fengið. Við vorum búnir að fara til fjögurra heimsálfa á tíu dögum og vorum algjörlega búnir á því,“ segir Árni. Hljóðver Hammonds er í hlöðunni á búgarðinum, en þar hittu þeir einnig Gus Oberg. Hann stýrði upptökum Angles, síðustu plötu The Strokes, sem kom út í mars.

„Þeir voru strax byrjaðir að vinna nýja plötu. Þeir tóku sér bara frí í tvo daga til að taka upp lagið með okkur. Við tókum upp á sömu græjur og þeir, þannig að þetta hljómar eins og við höfum verið í hljóðveri með The Strokes.“ -afb








×