Harmageddon

Sykur þróar stílinn á nýrri plötu

Söngkonan Agnes Björt hefur gengið til liðs við Sykur.
Söngkonan Agnes Björt hefur gengið til liðs við Sykur.
"Það var margt sem bjátaði á við gerð plötunnar," segir Halldór Eldjárn úr hljómsveitinni Sykri.

Sykur hefur sent frá sér plötuna Mesópótamía, sem fylgir eftir frumburði sveitarinnar, Frábært eða frábært, sem kom út árið 2009.

Plata númer tvö, var hún erfið?

"Við tókum okkur allavega tíma í þetta. Það voru tímabil þar sem við þurftum að spila mikið og þá fór allt forgörðum. Útkoman var allt öðruvísi en við lögðum upp með í byrjun vegna þess að við vorum að læra svo mikið og þróa stílinn í leiðinni."

Var freistandi að fá Erp í annað lag og endurtaka Viltu dick-ævintýrið?

"Hvenær hefur það virkað? Erpstímabilið var mjög fínt, það er gaman að vinna með honum. En við myndum ekki gera þetta aftur. Þá væri alveg eins hægt að setja okkur í Góða hirðinn, en við viljum stöðugt vera að finna upp á einhverju nýju."

Söngkonan Agnes Björt Andradóttir hefur gengið til liðs við Sykur. "Ég uppgvötaði hana fyrir þremur árum. Fattaði að hún býr við hliðina á mér, þannig að það er stutt fyrir hana á æfingar," segir Halldór. "Hún kemur inn í þetta verkefni á eigin forsendum og býr til glænýjan hljóm með okkur."

Sykur fagnar útgáfu plötunnar á Faktorý í kvöld. Hlýtt verður á plötuna í heild og að því loknu verður samfélagslegt gildi hennar rætt.








×