Fastir pennar

Gjaldeyrishöftin og gengið

Þorvaldur Gylfason skrifar
Þegar asíska fjármálakreppan skall á löndunum þar austur frá 1997, féll gengi indónesísku rúpíunnar um 80 prósent. Verðið á erlendum gjaldeyri og innfluttum varningi fimmfaldaðist. Gengishrun rúpíunnar olli þungum búsifjum í Indónesíu eins og nærri má geta. Kaupmáttur heimilanna hrundi, og erlend skuldabyrði fyrirtækjanna og ríkisins þyngdist til muna. Svo hátt gengisfall krónunnar þurfti að varast eftir fall bankanna hér heima 2008. Þess vegna var gripið til strangra, tímabundinna gjaldeyrishafta.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem var andvígur gjaldeyrishöftum í Indónesíu 1997, hafði séð sig um hönd í ljósi reynslunnar frá Asíu, og beitti sér nú fyrir höftum á Íslandi, og skyldu þau standa í tvö til þrjú ár eða til 2010 eða 2011. Hugsunin var sú, að án haftanna gæti krónan farið sömu leið og indónesíska rúpían, og fyrir þá hættu þyrfti að girða. Indónesíska rúpían féll ekki varanlega um 80 prósent, heldur náði hún sér á nokkrum árum á strik á þann veg, að um það bil helmingur upphaflegs gengisfalls gekk til baka líkt og gerðist um sama leyti í Taílandi.

Með öðrum orðum: fjármálahrunið í Asíu sendi gengi gjaldmiðlanna niður fyrir eðlileg mörk og hélt þeim þar svo árum skipti. Þeir festust við botninn. Þessu þurfti að komast hjá hér heima. Þess vegna voru höftin innleidd, enda þótt vitað sé af langri reynslu, að gjaldeyrishöft geta valdið talsverðum skaða, óhagkvæmni og spillingu, og þeim mun frekar sem þau standa lengur. Afnám haftanna hefur dregizt vegna seinagangs í framkvæmd efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar.

Hvenær er rétti tíminn?Stóra spurningin um höftin hér heima nú er þessi: Hvenær er tímabært að aflétta þeim? Ekki reyndist kleift að afnema höftin innan tveggja til þriggja ára svo sem lagt var upp með. Það stafar af því, að þá hefði gengi krónunnar líklega fallið enn meira en orðið er, og hefur gengið þó fallið um 50 prósent gagnvart Bandaríkjadal og evru frá því fyrir hrun. Ekki er heldur enn talið tímabært að aflétta höftunum, þar eð hættan á frekara gengisfalli er enn til staðar. Nú er að því stefnt að afnema höftin 2013, tveim til þrem árum á eftir upphaflegri áætlun frá 2008.

Sumir telja, að krónan hafi fallið svo mjög, að hún geti vart fallið meira. Það sjónarmið stangast á við reynsluna frá Indónesíu og öðrum Asíulöndum. Þar féll gengi gjaldmiðlanna langt niður fyrir eðlileg mörk, festist við botninn og hélzt þar árum saman. Ef gengi krónunnar er nokkurn veginn rétt nú miðað við framboð og eftirspurn á gjaldeyrismarkaði og vaxtastefnu Seðlabankans, er það út af fyrir sig ekki óbrigðul vísbending um, að haftanna sé ekki lengur þörf. Það stafar af því, að þær systur, framboð og eftirspurn, eru ekki óskeikular, og það er Seðlabankinn ekki heldur. Til dæmis hélzt gengi krónunnar langt yfir vitrænum mörkum árum saman fram að hruni, og hvorki ríkisstjórnin né Seðlabankinn vissu sitt rjúkandi ráð. Með líku lagi væru þær systur vísar ásamt Seðlabankanum til að halda gengi krónunnar árum saman langt undir eðlilegu horfi, límdu við botninn, einkum vegna þess að framtíðartrú fólks og fyrirtækja á krónunni er nú lítil í ljósi reynslunnar. Alveg eins og oftrú, mér liggur við að segja ofsatrú, hélt gengi krónunnar langt yfir réttu marki árum saman fyrir hrun, gæti vantrú haldið genginu undir réttu marki árum saman eftir hrun. Þetta er vandinn í hnotskurn eins og hann horfir við mér.

Er gengið nú of hátt eða of lágt?Önnur stór spurning um gjaldeyrishöftin og gengi krónunnar nú er þessi: Er gengið rétt? Eða er því kannski haldið of háu í skjóli haftanna? Eða féll gengið kannski niður fyrir eðlileg mörk og bíður þess nú að rétta úr kútnum? Um þetta getur menn greint á.

Sumir hagfræðingar, til dæmis Robert Aliber prófessor í Chicago, sem hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum fyrir og eftir hrun og þekkir vel til staðhátta, telja gengið 10 til 20 prósentum of hátt nú og að það muni því trúlega eiga eftir að lækka sem því nemur, þegar rykið sezt. Ýmsir aðrir, til dæmis Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, virðast telja gengið 10 til 20 prósentum of lágt og að það muni því trúlega eiga eftir að hækka sem því nemur, þegar öll kurl eru komin til grafar. Enn aðrir telja, að nú virðist gengið vera á nokkurn veginn réttu róli svo sem ráða megi af því, að til dæmis máltíðir á veitingahúsum í Reykjavík kosta nú svipað hér heima og í mörgum nálægum löndum mælt í erlendum gjaldmiðlum, en fyrir hrun kostuðu þær um tvisvar sinnum meira hér en þar. Þetta er þó ekki órækur vottur um rétt gengi, heldur aðeins gróf vísbending um, að gengið nú sé ef til vill ekki fjarri réttu lagi. Eitt er alveg víst: Gamla gengið frá 2007 kemur aldrei aftur.






×