Fastir pennar

Samtaka nú

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Að minnsta kosti tíu nauðganir urðu um verslunarmannahelgina samkvæmt tölum frá neyðarmóttökum víða um land, þar af voru sex á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, sem almennt mun annars mjög ánægjuleg samkoma. Vitað er að einungis brot slíkra atburða er tilkynnt þannig að reikna má með því að nauðganir þessa helgi hafi verið talsvert fleiri. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa brugðist við þessum fréttum með því að tilkynna um áform sín um að koma upp eftirlitsmyndavélum á næstu Þjóðhátíð í þeirri von að slíkt kunni að fæla ofbeldismennina frá því að láta til skarar skríða. Þess er vonandi líka að vænta að menn hætti að lifa sig inn í gamlan ágreining og taki upp gott samstarf við Stígamót fyrir næstu hátíð.

Óþarfi er að gera því skóna að skipuleggjendur Þjóðhátíðar eða annarra slíkra mannamóta um þessa helgi láti sér slíkt ofbeldi í léttu rúmi liggja eða séu sáttir við það. Því fer auðvitað fjarri. En þeir vilja gjarnan fá að tala um eitthvað annað þegar þeir eru spurðir í fjölmiðlum út í þessar hátíðir og hvernig þær hafi gengið. Þeir vilja tala um veðrið, þúsundir fólks sem skemmt hafi sér vel, og að allt hafi „farið að öðru leyti vel fram"– og þá kann stundum að virðast eins og þeir vilji draga fjöður yfir ofbeldisverkin sem hér á landi hafa fylgt útihátíðum alltof lengi.

Þegar menn hafa verið lengi í þessu hyllast þeir líka kannski til þess að fara smám saman að líta svo á að svona ofbeldi sé á einhvern hátt óhjákvæmilegur fylgifiskur, þetta sé partur af mannlífinu; svona sé þetta bara, því miður. Meðal þess sem er svo jákvætt við málflutning Stígamóta er uppreisnin gegn þess háttar forlagahyggju. Nei, segja þær hjá Stígamótum, þetta er ekkert óhjákvæmilegur partur mannlífsins, þetta er óþolandi og fullkomlega óeðlilegt og við eigum að vera óþreytandi að berjast gegn þessari forsmán.

Þennan baráttuhug, þennan eldmóð, þessa bjartsýni og þennan kraft verða forsvarsmenn útihátíða að nýta sér í baráttunni gegn nauðgunum á þessum hátíðum. Þeir eiga ekki að standa í ófrjóu stappi Stígamótakonu um tölur og túlkun þeirra, ekki að fyllast tortryggni um að verið sé að sverta hátíðina þeirra eða ryðjast inn á löghelgað svæði þeirra heldur einmitt að fagna svo öflugum liðsauka við að ná fram sameiginlegu markmiði.

Engan tvískinnungFyrir næstu verslunarmannahelgi þurfa málsmetandi karlar að láta heyra í sér miklu meira en þeir hafa gert fram að þessu og senda skýr skilaboð til kynbræðra sinna um það hvernig litið er á nauðganir. Þá dugir ekkert hálfkák, enginn tvískinnungur eða tvíveðrungur – þá dugir ekki lengur íslenska tvöfalda skilaboðakerfið. Það þarf að tala hreint út; mannslíf eru í húfi.

Karlmenn sem unnið hafa sér eitthvað til frægðar sem öðrum körlum þykir til um, eru svokallaðar fyrirmyndir, verða þá að kveða upp úr með hlutina en ekki gæla við kvenhatrið sér til töffs eins og viljað hefur brenna við í þeim kúltúr sem haldið er að ungum körlum. Rapparar þurfa að tala skýrt, íþróttastjörnur, fimleikamenn og vöðvabollur, stjörnulögfræðingar, stjórnmálaskörungar og viðskiptafrömuðir, rokkarar, leikarar og brandarakallar: allir þeir sem vænta má að aðrir karlmenn hlusti á þurfa fyrir næstu verslunarmannahelgi að lýsa því skýrt og skorinort yfir hversu viðbjóðslegar nauðganir eru og hvílík úrhrök í mannfélaginu nauðgarar eru. Það er ekki eins og það sé eitthvað erfitt eða flókið að lýsa yfir þeirri skoðun sinni.

Ekkert lögmálÞeir koma úr þjóðardjúpinu, nauðgararnir. Þetta eru ekki bara einhver gerpi heldur menn í alls konar fötum og með alls konar yfirbragð. Við mætum þeim á Laugaveginum og í Kringlunni. Við sjáum ofbeldismennina ekki utan á þeim – ofstopinn er í hausnum á þeim, ekki í göngulaginu eða klæðaburðinum. Þeir eru haldnir ranghugmyndum. Í menningarlegum skilningi er þetta karlavandi, sprottinn úr rótgrónum viðhorfum til kvenna – og karla, kynhlutverka og kynlífs. Þar með er ekki sagt að allir karlmenn séu hugsanlegir nauðgarar. En við þurfum að horfast í augu við hitt: hversu drukknir eða ruglaðir sem nauðgararnir kunna að vera þegar þeir fremja sín ódæði þá býr hugmyndin samt sem áður í hugskoti þeirra; sú hugmynd að hægt sé að nauðga; sá sem nauðgar drukkinn hefur þegar yfirstigið ódrukkinn einhverjar hömlur á því að hægt sé að gera slíkt.

Stundum er talað um að nauðgarinn hafi „komið fram vilja sínum". Það er auðvitað óttaleg tæpitunga um skelfilegan verknað en dregur þó fram að þetta snýst um vald – vilja gegn vilja; nauðgarinn hefur ekki bara „komið fram vilja sínum", hann hefur líka beygt vilja fórnarlambsins. Í hugskoti sér hefur hann fyrirfram þá hugmynd að ekki sé að marka vilja fórnarlambsins, ekki þurfi að virða þann vilja af einhverjum ástæðum: hann telur sem sagt að fórnarlambið væntanlega sé neðar sér í ímynduðum virðingarstiga, óæðra, verknaðurinn er nokkurs konar árétting á því viðhorfi. Og það viðhorf hefur orðið til hjá viðkomandi ódrukknum.

Það verður heldur ekki hjá því komist að nefna drykkjukúltúr Íslendinga á svona samkomum. Sökin á nauðgun liggur ævinlega og einvörðungu hjá þeim sem ofbeldið fremur en hitt er samt sem áður jafnréttisbarátta á villigötum að berjast fyrir rétti unglingsstúlkna til að vera ofurölvi til jafns við unglingspilta, eins og heyrst hefur þegar þessi umræða hefur borið á góma. Þar er tekinn rangur póll í hæðina því að það verður einfaldlega aldrei nógsamlega brýnt fyrir unglingum – strákum jafnt sem stelpum – að maður eigi ekki að drekka frá sér ráð og rænu og allra síst innan um þúsundir af ókunnugu fólki. Rétturinn til ölæðis er einfaldlega ekki til, allra síst hjá ólögráða krökkum, og löngu tímabært að við förum að horfast í augu við að þessi iðja að stefna þúsundum fólks á einn stað í því skyni að hvolfa í sig ómældu áfengi til að fá útrás er uppskrift að vandræðum.

Það er ekkert lögmál sem segir að karlmenn fari að nauðga eftir x marga sopa af brennivíni. Þess hlýtur að mega vænta að allir taki höndum saman um að útrýma slíkum ódæðum og öðru ofbeldi úr íslensku samkomuhaldi svo að þær rísi betur undir nafni sem hátíðir.






×