Fastir pennar

Múgurinn spurður II

Pawel Bartoszek skrifar
Ögmundur vill hafa flugvöll í Vatnsmýrinni. Hann má þó eiga það að þrátt fyrir þessa afstöðu þá hefur hann gefið hina misráðnu hugmynd um samgöngumiðstöð upp á bátinn. Það er líka gott að hann sé að leita raunhæfra lausna í málefnum flugstöðvarinnar, vonandi án þess negla flugvöllinn niður um of. Um ágæti hugmyndar Ögmundar varðandi þjóðaratkvæði um framtíðvallarins má þó deila.

Í síðustu viku birti ég grein um svokallaðar múgspurningar, það er að segja kosningar um tiltekin málefni sem stjórnmálamenn boða til í því skyni að firra sig ábyrgð eða styrkja eigin málefnastöðu. Tillaga Ögmundar um atkvæðagreiðslu, meðal allra landsmanna, um hvort flugvöllurinn í Vatnsmýri eigi að fara eða vera, er í þessum flokki.

Henni er ætlað að styrkja málefnastöðu stjórnmálamanns. Það er nánast öruggt hver niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu yrði, við vitum hvað þeim sem líta á völlinn sem lífæð við höfuðborgina finnst um hann.

Innanríkisráðherra hefur alla burði til að berjast fyrir sínum stefnumálum. Það á jafnt við um baráttu hans gegn því að vegnotendur greiði fyrir vegnotkun sem og baráttu fyrir því flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri. Til þess að ná þessum hlutum fram þarf ráðherrann engin þjóðaratkvæði. Hann situr þegar á þingi og í ríkisstjórn. Meiri völd er vart hægt að hafa.

Raunar geymir saga flugvallarmálsins auðvitað aðra múgspurningu, en það var flugvallarkosningin fyrir ellefu árum. Því er auðvitað ekki að leyna að það var gaman að taka þátt í þeirri kosningu, og sérstaklega var nú skemmtilegt að vinna. Það er alltaf gaman að vinna. En það breytir því ekki að flugvallarkosningin var dæmigerð múgspurning. Hún var boðuð af stjórnmálamönnum í því skyni að styrkja eigin málstað og leysa eigin deilur. Niðurstaða hennar var ekki bindandi en þeir sem til hennar boðuðu létu sem hún byndi sig samt. Forvitnilegt er að vita hvað hefði gerst ef flugvallarsinnar hefðu unnið með örfáum atkvæðum en ekki öfugt. Líklegast hefði það sama gerst og gerst hefur. Lítið.

Túlkun stjórnmálamanna á þjóðarvilja er gjarnan yndislega valkvæð.

Innanríkisráðherra tekur þannig mark á því að þó nokkuð margir vilji lýsa því yfir í undirskriftasöfnun að þeir vilji ekki borga veggjöld.

Áratugsgömul kosning Reykvíkinga um reykvísk skipulagsmál virðist hins vegar ekki lengur telja.

Aukin þátttaka almennings í lýðræðislegum ákvörðunum ætti í sjálfu sér að vera fagnaðarefni, en búa ætti vel um hnútana í þeim málaflokki og hafa rammann skýran. Eiga undirskriftasafnanir að uppfylla einhver skilyrði? Hver á að krefjast þjóðaratkvæðis, stjórnmálamenn eða kjósendur?

Hvernig myndi raunverulegt beint lýðræði virka? Við gætum ímyndað okkur að hópur kjósenda tæki sig saman og skrifaði lög eða áskorun til þingsins um að banna veggjöld. Næði slíkur hópur nægilega mörgum undirskriftum gæti hann lagt slíkar tillögur fyrir Alþingi og þar myndu þingmenn styðja þær eða fella og bera á því pólitíska ábyrgð.

Sé gengið lengra mætti jafnvel ímynda sér að tækist að safna nægilega mörgum undirskriftum færi málið í þjóðaratkvæði. Hagsmunasamtök bifreiðaeigenda gætu þá lagt til að sett væri í lög að „óheimilt væri að fjármagna vegagerð með vegjöldum“, slíkri tillögu myndu fylgja ítarlegar skýringar á afleiðingum hennar, kostum og göllum. Það myndi þá liggja fyrir að slíkt bann við innheimtu veggjalda þýddi annaðhvort að arðbærar vegaframkvæmdir myndu frestast eða að bensínskattar þyrftu að hækka til þess að þær næðu fram að ganga. Væri meirihluti kjósenda til í að taka slíka upplýsta ákvörðun þá yrði maður bara að una því. En slíkt ferli myndi kalla á meiri undirbúning og yfirvegun og yrði þannig marktækara en undirskriftarsöfnum um að vilja ekki borga fyrir það sem nú er ókeypis.

Ýmislegt mætti gera til að auka veg beins lýðræðis á Íslandi, vilji menn það. Stjórnmálamaður sem vill fjölga möguleikum kjósenda á að þvælast fyrir sér getur hæglega lagt sig fram við að búin verði til umgjörð um slíkt. Það er hins vegar allt annað en þegar menn leggja til múgspurningar til að styrkja eigin málstað. Og bæta síðan við að þeir geri það af einskærri lýðræðisást.






×