Handbolti

Guðmundur: Þessi leikur fer í sögubækurnar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðmundur fagnaði ákaft í leiknum um helgina.
nordic photos/bongarts
Guðmundur fagnaði ákaft í leiknum um helgina. nordic photos/bongarts
"Þetta var alveg rosalegt dæmi. Hreint út sagt svakalegur leikur. Þessi leikur á eftir að fara í sögubækurnar," sagði kátur þjálfari Rhein-Neckar Löwen, Guðmundur Guðmundsson, við Fréttablaðið en hans lið komst í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir ótrúlegan sigur, 26-35, gegn franska liðinu Montpellier.

Montpellier vann fyrri leikinn í Þýskalandi með tveggja marka mun og leiddi í hálfleik í seinni leiknum, 17-15. Síðari hálfleikur hjá Löwen var síðan hreint út sagt ótrúlegur því liðið vann hann 20-9.

"Við vorum ekki nógu góðir í fyrri leiknum og mér fannst við eiga mikið inni. Ég hafði ekki miklar áhyggjur í hálfleik því ég hafði alltaf á tilfinningunni að þetta myndi koma hjá okkur og við keyra yfir þá. Vörnin var frábær í síðari hálfleik þar sem Guðjón Valur var í lykilhlutverki sem framliggjandi maður í 5-1 vörn. Það er svakalegt að fá bara 9 mörk á sig í síðari hálfleik gegn svona sterku liði á útivelli," sagði Guðmundur en það sauð upp úr í húsinu þegar reynt var að taka hljóðnemann af vallarþulnum sem var að tala í tíma og ótíma.

Önnur lið sem komust í undanúrslit eru Ciudad Real, Hamburg og Barcelona.  Kiel, lið Alfreðs Gíslasonar og Arons Pálmarssonar, steinlá gegn Barcelona, 33-36, á heimavelli þar sem Barcelona var betri aðilinn allan tímann. Vonbrigðatímabil Kiel heldur því áfram en liðið tapaði einnig fyrri leiknum gegn Barcelona á Spáni.

Úrslitahelgin fer fram í Köln í lok mánaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×