Handbolti

Hreiðar með tilboð frá liði í Hvíta-Rússlandi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Félög víða í Evrópu hafa sýnt Hreiðari Levý áhuga. Hann er hér í leik með Emsdetten.
Félög víða í Evrópu hafa sýnt Hreiðari Levý áhuga. Hann er hér í leik með Emsdetten.
Landsliðsmarkvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson mun líklega hafa vistaskipti í sumar en samningur hans við þýska B-deildarfélagið Emsdetten rennur þá út. Félagið hefur ekkert rætt við Hreiðar um nýjan samning og því er hann farinn að líta í kringum sig.

"Það eru margir leikmenn að renna út á samningi hjá félaginu en þeir vilja ekkert ræða málin fyrr en í sumar," segir Hreiðar Levý en útskýringin á því er líklega sú að félagið veit ekki fyrr en í sumar hver rekstrargrundvöllurinn verður fyrir næsta vetur.

Markvörðurinn hefur ekki hug á því að bíða endalaust eftir tilboði frá félaginu.

"Framtíðin er óráðin hjá mér en það eru þreifingar víða. Ég hef fengið fyrirspurnir frá liðum í Þýskalandi, Danmörku og Noregi og svo kom eitt óvænt frá Hvíta-Rússlandi frá liði sem Gintaras Savykunas er að þjálfa," sagði Hreiðar og bætti við að eitthvað mikið þyrfti að gerast til að hann tæki tilboði frá Hvíta-Rússlandi.

"Það er mjög líklegt að ég fari frá Emsdetten og ég er að skoða mín mál í rólegheitum. Það þarf að vega og meta öll tilboð sem koma. Þetta hefur gengið hægt síðustu vikur en virðist vera að taka smá kipp núna," sagði Hreiðar, sem vill eðlilega ganga frá sínum málum sem fyrst.

"Ég þarf að losa íbúðina mína hér 1. júní og það væri óneitanlega skemmtilegra að vita hvert ég ætti að fara í kjölfarið," sagði Hreiðar kíminn.

Hjá Emsdetten eru einnig þeir Fannar Þór Friðgeirsson og Sigfús Sigurðsson. Patrekur Jóhannesson þjálfar liðið en hann hefur lýst því yfir að hann sé á leið heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×