Handbolti

Ætla að vera áfram í Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þórir þarf að finna sér nýtt félag fyrir næsta tímabil.
Þórir þarf að finna sér nýtt félag fyrir næsta tímabil. Fréttablaðið/Valli
Eftir sex góð ár hjá TuS N-Lübbecke er hornamaðurinn knái Þórir Ólafsson á förum frá liðinu. Honum var tjáð af stjórnarmanni félagsins að hann fengi ekki nýjan samning hjá félaginu þar sem hann hefur verið fyrirliði síðustu tvö ár.

„Þeir vilja ekki framlengja og bera við niðurskurði. Þetta er ákvörðun þjálfara og stjórnar. Þeir sögðust ekki hafa peninga til þess að halda mér. Það stóð í þýskum miðlum að samningar hefðu ekki náðst, sem er kjaftæði því það voru engar samningaviðræður í gangi," segir Þórir, en hann er einn fjögurra leikmanna liðsins sem fá ekki nýjan samning.

„Mig hefur grunað þetta síðan eftir HM. Ég er pínu svekktur út í Markus Baur þjálfara, sem var ekki til í að segja mér frá þessu sjálfur."

TuS N-Lübbecke er eina félagið sem Þórir hefur spilað með í Þýskalandi en hann þarf nú að breyta til. Ekki kemur til greina að koma heim enda Þórir aðeins 31 árs gamall og er enn að spila afar vel.

„Ég reyni að líta á þetta jákvæðum augum og vonandi tekur eitthvað betra við. Það verður fínt að prófa eitthvað nýtt hérna úti. Umboðsmaðurinn minn hefur verið að þreifa fyrir sér síðustu vikur og það er áhugi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×