Viðskipti innlent

Ný vatnsverksmiðja að rísa á Rifi

Fyrir nokkrum dögum byrjuðu framkvæmdir við byggingu nýs vatnsverksmiðjuhúss í Rifi, eftir að nýir vatnsréttarhafar töldu sig hafa fullreynt að ná samningum við eigendur vatnsverksmiðjuhússins sem þar er fyrir og var byggt að félaginu Iceland Glacier Product.

Fjallað er um málið á vefsíðu Skessuhorns. Þar segir að  Iceland Glacier Product  missti vatnsréttindin síðasta haust þar sem það hafði ekki náð að uppfylla skilyrði samnings við Snæfellsbæ um framgang verkefnisins.

Félag í eigu nýju vatnsréttarhafanna er að mestu í eigu bresks fjárfestingafélags. Nýja húsið mun rísa á næstu lóð við Hraðfrystihús Hellissands skammt frá hafnarbakkanum. Það er byggingarfélagið Nesbyggð sem sér um byggingu hússins sem verður 1200 fermetrar að stærð. Áætlað er að byggingu og frágangi að innan við verksmiðjuhúsið verði lokið í októbermánuði næstkomandi og fljótlega upp úr því geti niðursetning véla hafist.

„Svo virðist því sem áform um vatnsútflutning frá Rifi séu aftur komin í fullan gang eftir að þau töfðust verulega um nokkurt skeið meðan Kanadamaðurinn Ottó Spock var aðaleigandi félagsins um vatnsréttindin. Sem fyrr er gert ráð fyrir að vatnsverksmiðja í Rifi veiti fjölda starfa og allmikla innspýtingu í atvinnulífið á svæðinu,“ segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×