Viðskipti innlent

Viðskipti með hlutabréf hrundu í Kauphöllinni í júní

Heildarviðskipti með hlutabréf námu 936 milljónum kr. í júní eða 49 milljónum kr. á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í maí 11. milljörðum kr. eða 533 milljónir kr. á dag.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group 423 milljónir kr.,  bréf Marels 413 milljónir kr. og bréf Össurar 66 milljónir kr.  Úrvalsvísitalan lækkaði á milli mánaða um 3,7% og stendur í 951 stigi.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 230 milljörðum kr. í síðasta mánuði sem samsvarar 12,1 milljarða kr. veltu á dag samanborið við  9,8 milljarða kr. veltu á dag í maímánuði. Mest voru viðskipti með ríkisbréf 167 milljarðar kr. en viðskipti með íbúðarbréf námu 56 milljörðum kr.

„Viðskipti með skuldabréf tóku vel við sér í júní og voru þau mestu á árinu en hlutabréfavelta var með minnsta móti,“ segir Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallarinnar í tilkynningu.

„Mikil viðskipti á skuldabréfamarkaði má m.a. rekja til viðbragða markaðsaðila við tíðindum af fyrstu skuldabréfaútgáfu ríkisins á erlendum mörkuðum frá því fyrir hrun og gjaldeyrisútboði Seðlabankans. Áhrifa hefur einnig gætt af verðsveiflum á hrávörumörkuðum, sem hafa endurspeglast í verðbólguvæntingum og hvatt til hreyfinga á milli óverðtryggðra og verðtryggðra bréfa.“

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn með mestu hlutdeildina í júní, 35,8% (73,6% á árinu), MP banki með 18,8% (5,1% á árinu), og Saga fjárfestingarbanki með 14,6% (4,1% á árinu). MP banki var umsvifamestur á skuldabréfamarkaði með 24,1% hlutdeild (26% á árinu), Íslandsbanki með 23,9% (24% á árinu) og Landsbankinn með 21,3% (17,8% á árinu).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×