Handbolti

Hrafnhildur: Fundu lausn á vörninni okkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn og Róbert í leiknum í dag.
Snorri Steinn og Róbert í leiknum í dag. Mynd/Valli
„Ég held að vandamálið sé núna að við erum að spila á móti sterkari liðum sem hafa fundið glufur á okkar varnarleik,“ sagði Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, einn sérfræðinga Vísis um HM í handbolta.

Ísland tapaði í dag fyrir Spáni, 32-24, á HM í handbolta og þar með sínum öðrum leik í röð. Strákarnir okkar töpuðu einnig fyrir Þýskalandi á laugardaginn.

„Þessi lið eru einfaldlega búin að stúdera okkur og hafa fundið lausn á þessari sterku vörn okkar,“ sagði Hrafnhildur.

„Þegar maður skoðar þetta nánar þá þurfa þeir Diddi og Sverre að dekka svakalega mikið pláss með svona framsækna tvista við hliðina á sér.“

„Svo þegar við mætum liðum sem eru með sterka línumenn sem liggja fyrir aftan tvistana okkar þá skapast mjög mikið svæði.“

Hún bendir á að þegar varnarleikurinn sé ekki í lagi, þá fái íslenska liðið ekki hraðaupphlaupin sín og það sé því dýrkeypt.

„Við fengum eitt hraðaupphlaup í fyrri hálfleik og það má bara ekki gerast. Leikurinn tapaðist í fyrri hálfleik og það hafði gríðarlega mikla þýðingu að hafa ekki fengið þessi auðveldu mörk með okkur.“

Ísland var tíu mörkum undir í hálfleik, 20-10, en náði að minnka muninn í fimm mörk þegar síðari hálfleikur var hálfnaður.

„Mér fannst vendipunkturinn í leiknum koma þegar að við áttum möguleika á því að minnka muninn í fjögur mörk og Sverre fékk dæmda á sig línu.“

„Við fengum hraðaupphlaup á okkur og þeir fiskuðu víti og fáránlegar tvær mínútur á okkur. Við máttum ekki við því. Bjöggi tók að vísu vítið en þetta var rothögg engu að síður.“

„Það mátti bara ekkert klikka á þessum tímapunkti.“

Hún segir að það sé einnig áhyggjuefni hversu illa gekk að spila sóknarleikinn í dag.

„Það eru bara ekki nógu margir leikmenn að ná sér á strik í sókninni - það verður bara að segjast.“

„Spánverjarnir fóru í framliggjandi vörn á móti okkur með ás sem náði að trufla sóknarleikinn okkar mjög mikið. Innleysingarnar sem áttu að koma komu einfaldlega ekki og þeir náðu að loka á allt línuspil. Þetta var höktandi og ótrúlega slakur sóknarbolti.“

Framundan er leikur gegn Frakklandi á morgun sem gæti haft mikla þýðingu fyrir baráttu Íslands um verða í einu af sjö efstu sætum mótsins en það veitir þátttökurétt í umspilskeppni um Ólympíusæti.

„Strákarnir verða að klára þennan riðil með stæl og sigur á morgun tryggir þriðja sæti riðilsins og þar með umspilið. Það væri nefnilega skelfilegt að missa hann líka - alveg hrikalegt.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×