Viðskipti innlent

Vefsalan hjá Strætó eykst um 128%

Sala á farmiðum og tímabilskortum Strætó í gegnum vefinn Strætó.is jókst um 128% á fyrstu fjórum mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil í fyrra. Sé verslun á Strætó.is það sem af er ári borin saman við sama tímabil árið 2009 hefur salan nær sexfaldast

Í tilkynningu segir að greinilegt er því að farþegar Strætó eru farnir að nýta sér netið í mun meiri mæli en áður til að kaupa farmiða.

Þetta má ekki síst þakka átakinu 33% meira á netinu, sem Strætó réðst í síðasta sumar með það að markmiði að fleiri myndu prófa að kaupa strætókort í gegnum Strætó.is. Salan tók þá mikið stökk og hefur aukningin verið stöðug síðan.

Þess vegna hefur Strætó ákveðið að endurtaka átakið í ár. Frá og með deginum í dag munu farþegar sem kaupa mánaðar-, þriggja mánaða og níu mánaða strætókort í gegnum Strætó.is fá kort með 33% lengri gildistíma en hefðbundið er. Þannig gildir mánaðarkortið í fimm vikur, þriggja mánaða kort í fjóra mánuði og níu mánaða kortið í eitt ár. Þetta tilboð gildir fyrir bæði persónuleg kort og handhafakort og stendur til 2. september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×