Viðskipti innlent

Útlán ÍLS jukust um 800 milljónir milli ára í apríl

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) námu tæpum 2,1 milljarði króna í apríl, en þar af voru tæpir 2 milljarðar króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í apríl í fyrra tæpum 1,3 milljörðum króna.  Útlánin hafa því aukist um tæplega 800 milljónir kr. milli ára í apríl.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Þar segir að meðalútlán almennra lána voru um 9,9 milljónir króna í apríl en um 10,0 milljónir í mars síðastliðnum.

Alls veitti Íbúðalánasjóður 709 ný íbúðalán fyrstu fjóra mánuði ársins í samanburði við 539 lán á sama tímabili í fyrra sem er 30% aukning. Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu í apríl var 337 og er þá aðrar eignir en íbúðarhúsnæði ekki taldar með.  Þegar apríl 2011 er borinn saman við apríl 2010 fjölgar kaupsamningum vegna fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu um 84% og vegna sérbýlis um 94%.

Heildarvelta íbúðabréfa nam um 54,4 milljörðum króna í apríl samanborið við um 64,2 milljarða í mars 2011.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu rúmum 8 milljörðum króna í apríl, en þar af nam afborgun íbúðabréfa um 7,6 milljörðum króna. Uppgreiðslur í apríl námu um 350 milljónum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×