Viðskipti innlent

Gekk Tryggvi erinda Milestone?

Frásögn fyrrverandi seðlabankastjóra og annarra styrkir þá frásögn að Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður, hafi gengið erinda Milestone þegar hann var efnahagsráðgjafi forsætisráðherra.

Björgólfur Thor Björgólfsson segir á vef sínum að Tryggvi Þór Herbertsson, núverandi alþingismaður, hafi notað fund sem hann átti með Björgólfi í umboði Geirs H. Haarde þáverandi forsætisráðherra til að selja honum Askar Capital, en Tryggvi hafði aðeins örfáum misserum áður verið forstjóri þess félags. Fundurinn átti sér stað í ágúst 2008.

Tryggvi barst ókvæða við greininni og sagði Björgólf Thor „lygamörð" og „siðleysingja." Í sjöunda bindi rannsóknarskýrslunnar segir um sunnudagskvöldið 29. september 2008, daginn fyrir þjóðnýtingu Glitnis að Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone og fyrrv. yfirmaður Tryggva, hafi sent starfsmanni Seðlabankans tölvupóst með hugmyndum Milestone um aðkomu ríkissjóðs að vandræðum Glitnis og af bréfinu hafi mátt ráða að Karl hafi verið upplýstur um vandræði Glitnis, sem benti til að upplýsingar hefðu lekið út.

Þá er einnig haft eftir seðlabankastjóra, í þessu sama bindi og sama kafla skýrslunnar, að Tryggvi Þór hafi verið „gerandi með Milestone-mönnum í fullt af hlutum og átti að koma aftur til baka í þessa starfsemi, og seðlabankastjórinn segir:

„Mér fannst þetta allt saman mjög óþægilegt og þegar var búið að segja mér þarna áður af mínum starfsmönnum að hann væri hringjandi út að lýsa við „kontakta" sína í farsíma hvað við værum að ræða þarna inni, þá fannst mér það algjörlega forkastanlegt og undirstrika efasemdir mínar um það að hann gæti komið fram sem fulltrúi forsætisráðherrans gagnvart Seðlabankanum og ætlast til þess að við sýndum honum fulla hreinskilni."

Tryggvi Þór sagðist við fréttastofu hafna því að hafa gengið erinda eins né neins þegar hann var ráðgjafi forsætisráðherra og sagði að Geir gæti staðfest orð sín. Geir svaraði ekki skilaboðum fréttastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×