Handbolti

Danir og Svíar óttast að Frakkar muni tapa viljandi fyrir Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dalibor Doder í baráttunni í leik með sænska landsliðinu á HM.
Dalibor Doder í baráttunni í leik með sænska landsliðinu á HM. Nordic Photos / AFP

Leikmönnum Danmerkur og Svíþjóðar finnst leikjaniðurröðun á HM í handbolta í meira lagi furðuleg ef marka má ummæli þeirra í fjölmiðlum ytra í dag.

Danmörk og Svíþjóð hafa þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum HM en þau leika bæði í milliriðli 2. Þau mætast í lokaumferð milliriðlakeppninnar klukkan 19.15 annað kvöld.

Það verður hreinn úrslitaleikur um efsta sæti milliriðilins en Dönum mun duga jafntefli til að tryggja sér það sæti.

Hálftíma síðar hefst viðureign Íslands og Frakklands í milliriðli 1. Bæði Danmörk og Svíþjóð vilja sleppa við að mæta Frökkum í undanúrslitum.

En sænsku og dönsku leikmennirnir óttast að Frakkar muni velja sér andstæðing í undanúrslitunum og haga úrslitum í leiknum gegn Íslandi eftir því.

Fyrirkomulagið er þannig að efsta liðið í milliriðli 1 mætir liðinu sem verður í öðru sæti í milliriðli 2 og öfugt.

„Þetta er heimskulegt og afar skrýtið," sagði sænska varnartröllið Magnus Jernemyr. „Ég skil ekki af hverju þetta þarf að vera svona. Leikirnir ættu að fara fram á sama tíma."

„Þetta vissi ég ekki um. Þetta þýðir í raun að leikurinn gegn Svíum skiptir engu máli," sagði Daninn Mads Christiansen við Aftonbladet. „Við viljum ekki mæta Frökkum í undanúrslitum."

Svíinn Dalibor Doder tók í sama streng. „Við getum unnið hvaða lið sem er en viljum helst sleppa við Frakka í undanúrslitum."

Arne Elovsson er í forsvari fyrir HM í Svíþjóð en segist lítið geta gert í þessu. „Alþjóða handknattleikssambandið (IHF) ákveður leiktímana og fer eftir óskum sjónvarpsfyrirtækjanna. Við höfum nánast engin áhrif á þetta."

„Ég á þó erfitt að trúa því að nokkurt lið muni viljandi tapa leik."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×