Handbolti

Betri mórall hjá íslenska liðinu

Henry Birgir Gunnarsson í Malmö skrifar
Lars Christiansen hefur verið frábær með Dönum á HM.
Lars Christiansen hefur verið frábær með Dönum á HM. Fréttablaðið/Valli

Fréttablaðið hitti þá Lars Christiansen, leikmann danska landsliðsins, og Staffan „Faxa“ Olsson, landsliðsþjálfara Svía, í gær og spurði þá út í leik Íslands og Króatíu.

Báðir eru þeir að búa sig undir undanúrslitaleiki á HM á meðan Ísland spilar um fimmta sætið gegn Króatíu.

„Þarna mætast tvö góð lið sem hafa ekki að miklu að keppa. Ég býst við hörðum en jafnframt skemmtilegum leik,“ sagði Staffan en hrun íslenska liðsins í milliriðlinum kom honum nokkuð á óvart.

„Ég sá þetta ekki alveg fyrir. Ég hef reyndar ekki séð mikið til íslenska liðsins en heyrði að það hefði spilað virkilega vel í riðlakeppninni og væri til alls líklegt. Íslendingar hafa verið að missa leikmenn í meiðsli og ef menn ætla sér alla leið á svona stórmótum þurfa allir leikmenn að vera heilir út mótið.“

Lars Christiansen er þrautreyndur kappi og þekkir vel til íslenska liðsins sem og nokkurra leikmanna liðsins.

„Króatía er venjulega gott lið rétt eins og Ísland. Ég held samt að það sé betri mórall í íslenska liðinu. Ef Íslendingum tekst að lemja hraustlega á Króötunum í upphafi mun Ísland vinna leikinn,“ sagði Christiansen ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×