Handbolti

Sturla: Við þurfum að ná fram þessum vopnum okkar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson í hraðaupphlaupum.
Alexander Petersson í hraðaupphlaupum. Mynd/Valli
Sturla Ásgeirsson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um HM í handbolta en Ísland mætir Króötum í kvöld í síðasta leik sínum í keppnini en fimmta sætið á HM er í boði. Sturla þekkir vel til í íslenska liðinu enda var hann bæði í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í Peking og í bronsliðinu á EM í Austurríki í fyrra. Hann er ekki alltof bjartsýnn fyrir leikinn í kvöld.

„Þetta verður hörkurimma enda er mikið undir fyrir bæði lið. Fimmta sætið skiptir miklu máli í því að fá auðveldari riðil í forkeppni Ólympíuleikanna. Það er því til mikils að vinna," segir Sturla.

„Þessir síðustu leikir eru búnir að vera mjög erfiðir og þeir hafa væntanlega reynt á sálarlífið hjá mönnum. Ég held að þessir frídagar hafi gert okkur gott og menn nái að gíra sig upp og fórna sér í einn leik í lokin," segir Sturla.

„Ég er kannski ekki svartsýnn en ég er ekki alltof bjartsýnn. Ég sá Króatana spila við Pólverja um daginn og þeir voru mjög sannfærandi í þeim leik. Ef þeir eru í stuði og nenna þessu þá eru þeir feykilega góðir," segir Sturla.

„Við þurfum að ná upp klassavörn, markvörslu og fá hraðaupphlaupin í gang sem er okkar stærsti kostur og það besta sem liðið hefur verið að gera í keppninni. Við þurfum að fá þetta í gang og ég vil meina að það sé lykillinn að sigri," segir Sturla.

Sturla Ásgeirsson.Mynd/DIENER

„Kóatarnir spila væntanlega 5:1 vörn með Vori fyrir framan og það hefur ekki gengið alltof vel hjá okkur á móti 5:1 vörn eða 3:2:1 vörn hingað til. Ef við fáum þessi ódýru mörk og þurfum ekki að hafa mikið fyrir hlutunum þá held ég að við vinnum.

Ef þetta verður svona járna-leikur þar sem að við þurfum að stilla upp í leikkerfi í hverri einustu sókn þá gæti þetta orðið þungur róður," segir Sturla.

„Það er mikilvægt að klára þetta með sigri. Fimmta sætið á HM er frábær árangur þó svo að það hefði ekki þurft mikið til að ná mikið lengra. Ég vona að við náum að spila okkar leik og sýna okkar rétta andlit.

Við þurfum að ná fram þessum vopnum okkar, vörn og hraðaupphlaupum, og þá á þetta eftir að ganga vel. Ef þetta verður svona baráttuleikur sem þarf að stilla upp í leikkerfi og sókn í hvert einasta skiptið þá held ég að þetta gæti farið illa," segir Sturla.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×