Handbolti

Jörgensen spáir Íslandi í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jörgensen í leik með danska landsliðinu árið 2008.
Jörgensen í leik með danska landsliðinu árið 2008. Nordic Photos / Getty Images
Lars Jörgensen, fyrrum leikmaður danska landsliðsins, spáir því að Ísland muni ásamt Frakklandi komast í undanúrslit á HM í handbolta.

Jörgensen hætti að leika með danska landsliðinu í fyrra og bloggar nú á heimasíðu dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 um HM í Svíþjóð. Hann er einnig samherji þeirra Snorra Steins Guðjónssonar og Arnórs Atlasonar hjá AG Kaupmannahöfn.

Danir eru í góðum málum eftir sigur á Króatíu í gærkvöldi og fóru í milliriðil 2 með fjögur stig. Danmörk var eina liðið, ásamt Íslandi, sem vann alla fimm leiki sína í riðlakeppninni.

Ísland er í milliriðli 1 en efstu tvö liðin úr hvorum riðli komast áfram í undanúrslit.

Jörgensen er viss um að Danir munu komast áfram í undanúrslitin og spáir því að þar muni annað hvort Ísland eða Frakkland bíða þeirra.

Hann segir þó það vera galopið hvaða lið muni fylgja Dönum upp úr milliriðli 2. Svíþjóð, Pólland og Argentína eru öll með tvö stig í upphafi milliriðlakeppninnar en Króatía og Serbía eitt.

Hann ætlar þó ekki að afskrifa Króatíu alveg strax og segir vel mögulegt að liðið geti unnið alla þrjá leiki sína í milliriðlakeppninni.

Danmörk á erfiðan leik gegn Póllandi á morgun.

Úrslit, staða og næstu leikir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×