Handbolti

Hrafnhildur: Ef að Robbi er kominn í gírinn þá hef ég ekki áhyggjur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson spilaði vel á móti Noregi.
Róbert Gunnarsson spilaði vel á móti Noregi. Mynd/Valli
Hrafnhildur Skúladóttir er einn þriggja sérfræðinga Vísis um HM í handbolta en Ísland mætir Þýskalandi í dag. Hrafnhildur er bjartsýn fyrir leik dagsins sem hefst klukkan 17.30 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

„Mér lýst náttúrulega voða vel á þetta enda eru þeir búnir að vera svo sannfærandi og halda því vonandi bara áfram. Maður er samt drullustressaður af því að við erum búnir að eiga alltof létt með þá lengi þannig að það fer örugglega að styttast í ósigurinn. Það er eins gott að hann komi ekki í kvöld," sagði Hrafnhildur en Ísland er búið að vinna fimm leiki í röð á móti Þjóðverjum.

„Við tökum þetta. Ef Ingimundur og Sverre halda áfram að spila svona vel í vörninni og Björgvin verður góður í markinu fyrir aftan þá er þetta var komið," sagði Hrafnhildur.

„Þjóðverjar eru eiginilega komnir upp að vegg með að ná þessu Ólympíusæti og verða í mjög vondum málum ef þeir tapa þessu á eftir. Þetta er því gríðalega mikilvægur leikur fyrir þá líka þó svo að þeir séu búnir að missa af undanúrslitunum," segir Hrafnhildur.

„Það var frábært að sjá Robba koma svona sterkan inn í síðasta leik því hann var mjög góður á móti Norðmönnum. Ef hann er kominn í gírinn þá hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu. Þeir eru búnir að vera svo stöðugir, Alexander er búinn að vera stórkostlegur og Snorri Steinn er líka búinn að vera mjög fínn. Vinstri skyttan er upp og niður en málið er bara með þetta lið okkar að ef þrír til fjórir ná sér á strik í sókninni þá er þetta komið hjá okkur. Við þurfum ekki fleiri," segir Hrafnhildur.

„Strákarnir okkar eru búnir að halda sér á jörðinni og þeir eru góðir í því. Ég held að þeir haldi því áfram, taka einn leik fyrir í einu og klára þetta," segir Hrafnhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×