Handbolti

Suður-Kóreumenn gerðu sitt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. Nordic Photos / AFP

Fyrsta leik dagsins er lokið á HM í handbolta en í honum vann Suður-Kórea sigur á Slóvakíu, 31-26.

Suður-Kórea er nú með fimm stig, alveg eins og Argentína sem mætir Síle síðar í dag.

Þessi tvö lið eru að berjast um þriðja sæti riðilsins og að fara áfram í milliriðlakeppnina með Svíum og Pólverjum.

Suður-Kórea þurfti að vinna Slóvakíu með minnst fjögurra marka mun til að halda möguleikum sínum á þriðja sæti riðilsins á lífi.

Nú þurfa þeir að treysta á að Síle vinni lið Argentínu. Það verður þó að teljast afar ólíklegt. Argentínumenn eru sjóðandi heitir eftir frábæran sigur á Svíum á þriðjudaginn, 27-22, og dugir semsagt jafntefli gegn einu slakasta liði keppninnar í dag til að komast áfram.

Suður-Kórea komst í 4-0 í dag og hélt forystunni allt til loka. Staðan var 14-10 í hálfleik og náðu að lokum að vinna fimm marka sigur.

Ef Argentína vinnur Síle á eftir verður Suður-Kórea í fjórða sæti riðilsins, Slóvakía í því fimmta og Síle sjötta.

Þrjú neðstu liðin í hverjum riðli keppa í hinum svokallaða Forsetabikar sem er keppni liðanna um 13.-24. sæti mótsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×