Handbolti

Iker Romero: Við spiluðum fullkomlega í vörn og sókn

Smári Jökull Jónsson í skrifar
Spánverjar fagna sigri í leiknum.
Spánverjar fagna sigri í leiknum. Mynd/AFP

Iker Romero leikmaður Spánverja var gríðarlega ánægður eftir 32-24 sigur Spánverja á Íslendingum í dag. Spánverjar leiddu með tíu mörkum í hálfleik og þó svo að Íslendingar hafi náð að minnka muninn í síðari hálfleik var sigurinn aldrei í hættu.

„Við erum virkilega ánægðir. Við bjuggumst aldrei við að vera í þeirri stöðu að vera tíu mörkum yfir í hálfleik gegn Íslandi eða að vinna leikinn með átta mörkum. Nú erum við komnir í undanúrslit heimsmeistarakeppninnar og við erum gríðarlega ánægðir,“ sagði hinn sterki leikmaður Spánverja í samtali við Vísi að leik loknum.

„Ég hafði aldrei ímyndað mér að staðan í hálfleik skyldi vera eins og hún var. Við spiluðum fullkomlega í vörn og sókn og markvörður okkar spilaði frábærlega sömuleiðis. Við vissum að það yrði nánast ómögulegt að leika jafn vel í síðari hálfleiknum en við unnum með átta mörkum og það er meira en nóg.“

Slakur leikur íslenska liðsins í fyrri hálfleik kom flestum í opna skjöldu og Romero átti von á jafnari leik.

„Við spiluðum einfaldlega of vel. Ég átti frekar von á á því að munurinn yrði 2-3 mörk og að sigurinn gæti dottið hvoru megin. En þessu átti ég ekki von á. Við ræddum í hálfleik að íslenska liðið væri sterkt.

Markvörðurinn átti mikið inni frá fyrri hálfleiknum og við áttum alveg eins von á að Ísland myndi ná að minnka muninn töluvert í seinni hálfleiknum, jafnvel niður í þrjú eða fjögur mörk. En Arpad Sterbik í markinu hjá okkur hélt áfram góðum leik sínum í síðari hálfleik, bjargaði nokkrum mikilvægum skotum og við náðum að halda okkar forskoti nokkuð örugglega,“ sagði Romero.

Undir lok leiksins áttu Guðmundur Guðmundsson þjálfari Íslendinga og Albert Rocas leikmaður Spánverja í útistöðum sem lauk með því að Guðmundur fékk tveggja mínútna brottvísun.

„Nei, það er eðlilegt að menn æsi sig því taugarnar eru þandar. Svona lagað gerist í handbolta og þetta gleymist allt að leik loknum,“ sagði Iker Romero að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×