Viðskipti innlent

Icelandic Group selur starfsemi sína í Frakklandi og Þýskalandi

Verksmiðjan Pickenpack í Þýskalandi.
Verksmiðjan Pickenpack í Þýskalandi.
Icelandic Group hefur gengið frá sölu á starfsemi fyrirtækisins í Frakklandi og Þýskalandi til fjárfestahóps undir forystu sjávarútvegsfyrirtækisins Pacific Andes frá Hong Kong samkvæmt tilkynningu frá Icelandic.

Með sölunni er stigið mikilvægt skref við endurskipulagningu Icelandic Group; áherslur verða skýrari og skuldir lækka samkvæmt tilkynningunni. Fjárhagslegur ráðgjafi Icelandic Group við söluferlið var Merrill Lynch International (“BofA Merrill Lynch”), dótturfyrirtæki Bank of America Corporation.

Icelandic Group eignaðist þýska fyrirtækið Pickenpack Hussman & Hahn árið 2005 en það sérhæfir sig í framleiðslu og vinnslu sjávarafurða fyrir neytendamarkað í Þýskalandi og öðrum Evrópulöndum.

Árið 2006 eignaðist Icelandic Group verksmiðju í Wimille í Frakklandi (Gelmer), þar sem unnar hafa verið sjávarafurðir undir merkinu Icelandic Boulogne Sur Mer. Söluskrifstofa Icelandic France í París fylgir einnig með í kaupunum. Kaupverð er trúnaðarmál samkvæmt samkomulagi milli aðila.

Í mars síðastliðnum réð Icelandic Group Merrill Lynch International (“BofA Merrill Lynch”), dótturfyrirtæki Bank of America Corporation, sem fjárhagslegan ráðgjafa  samstæðunnar við mat á stefnu félagsins og þeim kostum sem félagið hefði í þeim efnum.

Meðal þeirra kosta voru sala eigna úr samstæðunni og möguleikar á sölu á hlut í félaginu. Salan á starfseminni í Frakklandi og Þýskalandi nú er hluti af þessu ferli.

Viðskiptin eru háð samþykki samkeppnisyfirvalda í viðkomandi löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×