Handbolti

Norðmenn: Töpuðum fyrir betra liði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Håvard Tvedten fer framhjá Ólafi Stefánssyni í leiknum í kvöld.
Håvard Tvedten fer framhjá Ólafi Stefánssyni í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Norskir fjölmiðlar fjalla mikið um landsleik Íslands og Noregs í kvöld þar sem Íslendingar höfðu betur 29-22. Norðmenn fara án stiga í milliriðil og möguleikar liðsins á að komast í undanúrslit eru úr sögunni.

Leikurinn var gríðarlega harður og Bjarte Myrhol línumaðurinn sterki i liði Noregs sagði við Verdens Gang að dómararnir hefðu leyft allt of mikla hörku - hjá báðum liðum. „Þetta hafði ekkert með handbolta að gera. Ég fékk að kenna á því eftir aðeins sjö sekúndur og þá vissi maður hvað var í vændum. Við vorum einnig grófir," sagði Myrhol sem er liðsfélagi þriggja íslenskra leikmanna sem leika undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar hjá Rhein Neckar Löwen. Myrhol kenndi ekki dómurunum um tapið. „Ísland lék betur en við - svo einfalt er það," sagði Myrhol.

„Við töpuðum gegn góðu liði og okkur var refsað. Þeir eru góðir og undir lokin hlupu þeir frá okkur. Við erum ekki nógu góðir til þess að vinna Ísland eins og staðan er í dag," sagði Håvard Tvedten við TV2 eftir leikinn.

Kristian Kjelling sagði við VG að Ísland hafi verið of sterkt í síðari hálfleik.

„Þeir léku sér að okkur í síðari hálfleik, við náðum ekki að skora og þeir skoruðu úr hraðaupphlaupum hvað eftir annað," sagði Kjelling en hann hefur verið veikur undanfarna daga.

Robert Hedin þjálfari Norðmanna sagði að úrslitin hefðu ekki gefið rétta mynd af leiknum. „Hlutirnir gengu of hratt fyrir sig í dag og við þurfum að taka áhættu undir lokin. Leikurinn var jafnari en lokatölurnar gefa til kynna," sagði Hedin við VG.

„En við töpuðum fyrir betra liði. Þar fyrir utan gerðum við of mörg mistök," bætti Hedin við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×