Viðskipti innlent

Ísland með þyngstu greiðslubyrðina hjá AGS

Ísland er með þyngstu greiðslubyrðina hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum af þeim löndum sem sjóðurinn hefur lánað til á undanförnum árum. Hér er átt við greiðslubyrði samkvæmt höfðatölu en endurgreiðslur á lánum AGS munu nema rúmlega 2.800 dollurum á hvern Íslending eða tæplega 330.000 kr.

Þetta kemur fram í ítarlegri úttekt sem breska blaðið Guardian hefur tekið saman um lánveitingar AGS. Næst á eftir Íslandi kemur Írland en þar nemur endurgreiðslan á lánum sjóðsins rúmum 2.600 dollurum á hvern Íra.

Guardian tekur fram að þessar tölur nái ekki yfir lengd lánstímans þannig að samanburður milli landa er eingöngu byggður á lánsupphæðinni sem síðan er deilt á milli fjölda landsmanna.

Ísland er einnig mjög ofarlega á blaði þegar lán AGS er borið saman við landsframleiðslu landsins. Lánið nemur 7,4% af landsframleiðslu Íslands. Aðeins eitt land er með hærra hlutfall en það er Líbería þar sem lán sjóðsins nemur 8,5% af landsframleiðslu.

Hvað heildarlán varðar hefur AGS lánað mest til Mexíkó eða tæplega 30 milljarða dollara. Næst í röðinni er Grikkland með tæplega 17 milljarða dollara lán frá sjóðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×