Viðskipti innlent

Lex: Ísland sigraði í kjúklingaleiknum

Hinn kunni dálkahöfundur Lex í Financial Times segir að Ísland hafi farið í „kjúklingaleikinn“ við alþjóðasamfélagið og sigrað í þeim leik. Fyrir þá sem vita ekki hvað kjúklingaleikurinn er felst hann í að tveimur bílum er ekið beint á móti hvor öðrum. Sá sem fyrr víkur er kjúklingurinn.

Lex segir að eftir að lappirnar voru slegnar undan Íslandi árið 2008 er endurkoma landsins á alþjóðlega fjármálamarkaði staðreynd. Svo virðist sem fjárfestar treysti Íslandi að nýju. Þótt að skuldatryggingaálag Íslands hafi hoppað upp í 264 punkta í gær er það enn mörgum sinnum lægra en álagið á Grikkland, Írland eða Portúgal.

Lex segir það kaldhæðni að í samanburði við fyrrgreind þrjú lönd sem einnig var bjargað í fjármálakreppunni hafi aðeins kröfuhafar Íslands tekið á sig afskriftir. Þar að auki virðast fjárfestar ekki hafa áhyggjur af því að Icesave deilan er enn óleyst.

Lex spyr þeirrar spurningar hvort Ísland geti ekki verið fyrirmynd Írlands hvað varðar lönd í skuldavanda. Ef fjárfestar eru viljugir til að lána Íslandi eftir að landið hefur farið í gegnum verulega endurskipulagningu á skuldum sínum getur það sama þá ekki átt við Írland?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×