Viðskipti innlent

Segir innanríkisáðherra koma í veg fyrir samkeppni í ferðaþjónustu

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
„Innannríkisráðherra er að reyna að koma í veg fyrir samkeppni í íslenskri ferðaþjónustu," segir sölu og markaðsstjóri Allrahanda, Þórir Garðarson, sem hóf akstur milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur fyrir einungis níu mánuðum en ráðherra vill nú gefa út einkaleyfi fyrir akstrinum.

Tvö fyrirtæki bjóða nú rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur, annars vegar Kynnisferðir og hins vegar Allrahanda sem hóf ferðir í lok mars. Sú samkeppni verður nú hins vegar úr sögunni ef breyting á lögum um fólksflutninga verða að veruleika. Í lögunum er vegagerðinni gefin heimild til að gefa út einkaleyfi á fólksflutningum á ákveðnum leiðum svo sem leiðinni milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur.

„Menn eru að kalla eftir samkeppni og mér sýnist að ráðherra sé með þessu að reyna að koma í veg fyrir samkeppni í íslenskri ferðaþjónustu," segir Þórir.

Hann segir sérleyfi Kynnisferða hafa orðið til þess að fargjöld með Flugrútunni hækkuðu um tæp 130 prósent og það sé óeðlilegt að atvinnulífinu sé ekki treyst fyrir að halda uppi samkeppni.

„Ef að menn ætla sér að vera í þjónustu þá verða menn að sinna viðskiptavinum alla daga ársins, allan sólarhringinn, það eru þeir sem ráða því hvenær þjónustan er til staðar og þeir sem ekki geta verið til staðar þeir falla bara út af markaðnum," segir Þórir.

Hann vonar að Ögmundur muni sjá að útiloka samkeppni gangi ekki upp.

„Ég held að það sé alveg klárt að þjónustan mun breytast verulega, hún mun örugglega ekki batna eins og hún gerir í samkeppni og ég held að þetta sé bara stórt skref aftur á bak," segir Þórir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×