Handbolti

Lichtlein farinn heim frá Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þýsku landsliðsmarkverðirnir eru hér saman komnir á þessari skemmtilegu mynd. Frá vinstri: Bitter, Heinevetter og Lichtlein.
Þýsku landsliðsmarkverðirnir eru hér saman komnir á þessari skemmtilegu mynd. Frá vinstri: Bitter, Heinevetter og Lichtlein. Nordic Photos / Bongarts
Carstein Lichtlein, einn markvarða þýska landsliðsins í handbolta, er farinn heim frá HM í Svíþjóð.

Lichtlein var þriðji markvörður Þjóðverja á mótinu og hefur reyndar ekki verið hluti af sextán manna leikmannahópi liðsins, líkt og hornamaðurinn Oddur Gretarsson sem er sautjándi maður í hópi Íslands ytra.

Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands, gaf Lichtlein þau skilaboð að honum væri frjálst að fara heim þar sem að líklega væri ekki not fyrir hann í Svíþjóð.

„Miðað við frammistöðu þeirra Johannes Bitter og Silvio Heinevetter er ekki þörf á að gera breytingu á markvarðamálum liðsins," sagði Brand við þýska fjölmiðla

„Mér þykir þetta óskaplega leitt fyrir hönd Carstein Lichtlein. Hann hefur aldrei spilað betur en einmitt á þessu tímabili í þýska úrvalsdeildinni."

„Ef ég mun nýta þann möguleika að skipta út leikmanni í hópnum mun ég fyrr skoða aðrar stöður. Því gat ég ekki lofað honum því að hann myndi koma við sögu. En ef annar markvarðanna í hópnum skyldi meiðast þá er Carsten reiðubúinn að koma aftur."

Þýskaland mætir Íslandi á HM í Svíþjóð á morgun í fyrstu umferð millriðlakeppninnar. Leikurinn hefst klukkan 17.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×