Handbolti

Frakkarnir fóru illa með Ungverja - burstuðu þá með þrettán mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Karabatic og félagar fóru á kostum í kvöld.
Nikola Karabatic og félagar fóru á kostum í kvöld. Mynd/AFP

Frakkar sýndu styrk sinn í kvöld með því að vinna þrettán marka sigur á Ungverjum 37-24, í fyrsta leik sínum í milliriðli okkar Íslendinga. Íslenska landsliðið er þar með komið niður í 3. sæti í riðlinum eftir að hafa misst bæði Frakka og Spánverja upp fyrir sig í dag.

Ungverjar byrjuðu leikinn vel og vorum um tíma með tveggja marka forskot í fyrri hálfleik (8-6 og 9-7). Frakkar unnu síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiksins hinsvegar 7-2 og voru því 18-13 yfir í hálfleik.

Ungverjar réðu síðan ekkert við Frakkana í seinni hálfleiknum þar sem franska liðið sýndi af hverju það er handhafi heimsmeistara-, ólympíu- og evrópumeistaratitilsins. Frakkar unnu að lokum þrettán marka sigur og skoruðu alls 37 mörk á ungverska liðið.

Ungverjar voru óheppnir að hitta á franska liðið eftir klúðrið á móti Spánverjum því það var ljóst á öllu að leikmenn liðsins ætluðu sér að bæta fyrir það að missa unninn leik á móti Spáni niður í jafntefli.

Nikola Karabatic skoraði 7 mörk fyrir Frakka, William Accambray var með sex mörk og Jerome Fernandez skoraði 5 mörk. Thierry Omeyer byrjaði í markinu en varði lítið en Daouda Karaboue kom sterkur inn og varði 52 prósent skot sem á hann komu alls 14 af 27 skotum.

Þjálfarasonurinn Tamas Mocsai var markahæstur Ungverja með sjö mörk en Ferenc Ilyes skoraði fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×