Handbolti

Guðjón Valur: Eins gott að við verðum á tánum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar frá Linköping skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er markahæstur á HM með 15 mörk.
Guðjón Valur Sigurðsson er markahæstur á HM með 15 mörk. Mynd/Valli

Guðjón Valur Sigurðsson stimplaði sig inn á HM með stæl gegn Brasilíu og það mun mikið mæða á honum gegn Japan í kvöld enda þurfa hornamenn íslenska liðsins að vera klókir gegn framliggjandi vörn Japana og Guðjón mun eflaust vera duglegur að hlaupa inn á línuna.

„Ég var tala við vin minn Szilagyi frá Austurríki og hann sagðist hafa verið að velta fyrir sér að kæra leikinn gegn Japan í hálfleik enda hafði hann á tilfinningunni að þeir væru alltaf manni færri. Svo fljótir eru Japanarnir. Þeir eru líka teknískt góðir og virkilega erfiðir við að eiga. Það er því eins gott að við séum á tánum. Náum góðri vörn og markvörslu til þess að geta keyrt hraðaupphlaupin," segir Guðjón en hann vonast til þess að varnarleikurinn verði lykillinn að sigri.

„Á móti Kóreu í Peking spiluðum við frábæra vörn og lentum ekki í erfiðleikum þar. Sóknarleikurinn gekk aftur á móti ekki nógu vel og þar lentum við aldrei þessu vant í erfiðleikum," sagði Guðjón en þessi frægi Kóreuleikur tapaðist einmitt, 22-21.

„Við megum ekki falla í þá gryfju að vera of aftarlega gegn þeim. Það sýndi sig í leik Japans og Austurríki að það er ekki nógu gott. Þeir eru með hörku skotmenn og gríðarlega sterkir maður á móti manni. Við verðum því að mæta grimmir til leiks."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×