Handbolti

Guðmundur hefur verið með í öllum sigrum á þýskum liðum á stórmótum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísland vann eftirminnilegan sigur á Þjóðverjum á Ólympíuleikunum í Peking.
Ísland vann eftirminnilegan sigur á Þjóðverjum á Ólympíuleikunum í Peking. Mynd/AFP
Guðmundur Guðmundsson, landliðsþjálfari, hefur komið að öllum þremur sigrum íslenska handboltalandsliðsins á þýskum landsliðum á stórmótum í handbolta. Hér er verið að tala um leiki við Þýskaland, Austur-Þýskaland og Vestur-Þýskaland á Heimsmeistaramótum, Evrópumeistaramótum og Ólympíuleikum.

Ísland hefur þrisvar náð að vinna þýsk lið á stórmótum, tvisvar með Guðmund sem þjálfara og einu sinni með Guðmund sem leikmann. Ísland hefur alls mætt þýskum landsliðum tíu sinnum á stórmótum og þýsku liðin hafa unnuð sjö sinnum þar af einu sinni eftir vítakeppni (Austur-Þýskaland á ÓL 1988).

Guðmundur skoraði 2 mörk þegar Ísland vann 19-17 sigur á Austur-Þýskalandi í milliriðli á HM í Tékkóslóvakíu 1990. Það var næstsíðasti landsleikur hans á ferlinum en sá síðasti tapaðist á móti Frökkum í leik um 9. sætið.

Guðmundur stýrði síðan íslenska liðinu til sigurs á Þýskalandi á bæði EM 2002 í Svíþjóð og á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Íslenska liðið vann fimm marka sigur fyrir níu árum (29-24) og fjögurra marka sigur (33-29) á leiðinni að silfrinu á Ólympíuleikunum fyrir rúmum tveimur árum.

Guðmundur tók einnig þátt í frægum sigri íslenska handboltalandsliðsins á Vestur-Þjóðverjum í b-keppninni í Frakklandi árið 1989. Guðmundur skoraði þá fjögur mörk í 23-21 sigri þar á meðal síðasta mark íslenska liðsins í leiknum sem kom liðinu þá í 23-19 þegar 50 sekúndur voru til leiksloka.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×