Viðskipti innlent

Segir úrskurð Hæstaréttar stórsigur fyrir lánþega

Nýfallin úrskurður Hæstaréttar í máli Tölvupóstsins ehf. gegn Frjálsa fjárfestingabankanum er stór sigur fyrir lánþega, hvort heldur um er að ræða einstaklinga eða lögaðila.

Þetta segir í tilkynningu frá Samtökum lánþega. Hér er um að ræða eitt af þeim fjölmörgu málum sem urðu til í kjölfar kröfugerðar lánþega í þrotabú bankans sem gerð var að frumkvæði Samtaka lánþega og völdu Samtök lánþega mál Tölvupóstsins ehf. til að fá fordæmi í ágreininginn og kostuðu allan málareksturinn.

„Verður að teljast til tíðinda að jafn lítil og fjárvana samtök leggi út í slíka skuldbindingu á sama tíma og öll helstu samtök alþýðunnar þora helst ekki að opna munninn gegn fjármálafyrirtækjum," segir í tilkynningunni.

„Í nýföllnum úrskurði er fyrst að telja að Hæstiréttur heimilar ekki afturvirkan vaxtaútreikning og miðast vaxtabreyting lána því við dómsuppsögu.

Í öðru lagi er viðurkennt að öll gengistryggð húsnæðislán sem eru efnislega samhljóða lánum Frjálsa fjárfestingabankans hf., bera ólögmæta gengistryggingu.

Í þriðja lagi er ljóst að uppgjör á gengistryggðum lánum eins og það er fram sett í nýsettum lögum efnahags- og viðskiptaráðherra er andstætt niðurstöðu Hæstaréttar.

Í fjórða lagi er hér viðurkennt, þvert á téð lög, að lögaðilar njóti sama réttar og einstaklingar við uppgjör á lánum með ólögmæta gengistryggingu.

Því er ljóst að lögin eru ekki bara gagnslaus til viðmiðunar við uppgjör lána með ólögmæta gengistryggingu. Heldur ganga þau í öllum meginatriðum gegn rétti lánþega.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er ljóst, að stöðva verður þegar innheimtu fjármálastofnana á afturvirkum vaxtagreiðslum. Jafnframt er ljóst að Alþingi verður að endurskoða lögin og jafnvel draga þau til baka. Ennfremur verða fjármálafyrirtæki að senda lánþegum nýja útreikninga vegna uppgjörs á lánum sem innihalda ólögmæta gengistryggingu.

Þangað til þessum skilyrðum er fullnægt er lánþegum gert ókleyft að greiða af umræddum lánum, enda algjör og fullkomin óvissa um uppgjör og eftirstöðvar," segir í tilkynningunni.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×