Jól

Gáfu eina jólagjöf

Jólin í Ekvador snúast um samveru en ekki pakka segir Snædís Ylfa Ólafsdóttir.
Jólin í Ekvador snúast um samveru en ekki pakka segir Snædís Ylfa Ólafsdóttir.

Fósturmamma Snædísar Ylfu Ólafsdóttur í Ekvador táraðist þegar Snædís bakaði fyrir hana jólasmákökur. Hún dvaldi sem skiptinemi þar árin 2005-2006.

Lítið fór fyrir jólagleðininni á aðventunni hjá fjölskyldunni sem ég bjó hjá," segir Snædís Ylfa. Því hafi hún, ásamt austurrískri vinkonu sinni, ákveðið að baka jólasmákökur. „Við gerðum þetta um miðja nótt svo við gætum komið fjölskyldunum okkar á óvart. Heimilisfólkið virtist aldrei hafa séð jólasmákökur áður og fósturmamma mín táraðist þegar hún kom fram og sá kökurnar á eldhúsborðinu," segir Snædís Ylfa. Þá hafi börnin á heimilinu sérstaklega glaðst yfir þessu. „Ég fékk líka sendar piparkökur að heiman og börnin eltu mig á röndum til að fá að smakka," segir hún og hlær.





Frá jólaboði AFS Snædís Ylfa ásamt fósturmömmu sinni og fósturbróður í Ekvador.
„Á aðfangadagskvöld fór fullorðna fólkið í kirkju og við unga fólkið vorum heima og gættum barnanna. Klukkan ellefu hittist stórfjölskyldan heima hjá afa og ömmu og þar borðuðum við Pan de Pascua sem er jólamatur þeirra í Ekvador og er einhvern veginn á milli þess að vera brauð og kaka," segir Snædís Ylfa.

Hún segir að í síðustu viku aðventunnar hafi allir í fjölskyldunni dregið sér einn leynivin. „Við áttum að vera sérstaklega góð við þann leynivin okkar. Þegar við svo vorum búin að borða á aðfangadagskvöld áttum við að leika leynivin okkar og hinir í fjölskyldunni reyndu að giska á hver hann væri.Loks áttum við að gefa þessum leynivini okkar pakka og hver fékk því bara einn pakka í staðinn fyrir eitthvert pakkaflóð," segir Snædís Ylfa. Hún segir því jólin í Ekvador snúast mest um að fjölskyldan sé saman í staðinn fyrir að þau snúist um pakka.

Snædís Ylfa minnist annarar jólahefðar með hlýju. Hún segir fjölskylduna hafa farið saman í fátækrahverfi borgarinnar til að gefa fátækum börnum brauð og mjólk. „Það er rosalega mikil fátækta þarna og fullt af fólki býr á götunni. Því er hefð fyrir því að fólk sem á meira fari á jólunum og gefi fátækari börnum mat," segir Snædís Ylfa.

Hátíðarbrauð frá Ekvador


Einn pk. þurrger, 1/4 bolli sykur, 1/3 bolli volgt vatn, 6 eggjarauður, 1 tsk. vanilludropar, 1/2 tsk. raspaður sítrónubörkur, 1/2 tsk. salt, 2 til 3 bollar hveiti, 8 msk. mjúkt smjör, 1/3 bolli súkkat, 1/4 bolli dökkar rúsínur, 1/4 bolli ljósar rúsínur, 1 bolli hakkaðar pekanhnetur eða valhnetur, 2 msk. bráðið smjör.

Leysið gerið upp í volgu vatninu, ásamt 1 tsk. af sykri. Setjið í skál og blandið eggjarauðum, vanilludropum, sítrónuberki, salti og restinni af sykrinum saman við. Hrærið með sleif. Sáldrið helmingnum af hveitinu saman við og mjúku smjörinu.

Setjið afganginn af hveitinu saman við og hnoðið. Hefist í 30 til 45 mín.

Hitið ofninn í 200°c. Hnoðið súkkat, rúsínur og hnetur varlega saman við deigið. Látið hefast háu smurðu formi í 15 til 20 mín. Penslið með smjöri og bakið í 10 mín. Lækkið hitann í 175°c og penslið aftur.

Bakið í 30 til 40 mínútur í viðbót eða þar til brauðið er gullinbrúnt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×