Handbolti

Ljónin lögðu refina og komust upp í þriðja sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson spilaði vel í kvöld.
Ólafur Stefánsson spilaði vel í kvöld. Nordic Photos / Bongarts
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, hafði betur í baráttunni við Dag Sigurðsson, kollega sinn hjá Füchse Berlin, þegar að liðin mættust í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Leiknum lauk með 33-32 sigri Löwen.

Úrslitin þýða að liðin hafa sætaskipti í deildinni og er Löwen nú komið upp í þriðja sætið. Füchse Berlin er í því fjórða en bæði lið eru með 39 stig. Löwen á þó leik til góða.

Gestirnir frá Berlín voru sterkari í fyrri hálfleik og náðu mest fjögurra marka forystu í stöðunni 14-10. En Löwen barði frá sér og náði að jafna metin áður en flautað var til hálfleiks, 16-16.

Heimamenn sigu svo fram úr í síðari hálfleik og var það ekki síst að þakka markvörslu Slawomir Szmal á lokakaflanum. Berlínarbúar náðu að ógna forystu Löwen á lokamínútunum en allt kom fyrir ekki.

Ólafur Stefánsson átti einnig stórleik í liði Löwen og skoraði alls sex mörk í leiknum. Róbert Gunnarsson fékk lítið að spila og komst ekki á blað. Hann fiskaði þó eitt víti. Guðjón Valur Sigurðsson kom ekki við sögu.

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Füchse Berlin í leiknum.

Hamburg er á toppi deildarinnar með 47 stig og fjögurra stiga forystu á Kiel sem er í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×