Handbolti

Spánverjar unnu Þjóðverja í kaflaskiptum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands.
Heiner Brand, landsliðsþjálfari Þýskalands. Nordic Photos / AFP
Spánverjar unnu í kvöld afar mikilvægan sigur á Þjóðverjum í A-riðli á HM í handbolta í Svíþjóð, 26-24.

Staðan í hálfleik var 13-13 en svo virtist sem að Þjóðverjar væru að sigla fram úr um miðjan síðari hálfleikinn þegar að Johannes Bitter varði nánast allt sem á þýska markið kom.

En þá fóru Þjóðverjar einfaldlega á taugum í sókninni og það nýttu Spánverjar sér til fulls. Sterbik varði oft glæsilega í markinu og Spánverjar refsuðu oft með hraðaupphlaupsmörkum en þess á milli bjuggu þeir upp nokkur góð mörk fyrir línumanninn Julen Aguinagalde.

Bitter átti stórleik fyrstu 50 mínútur leiksins en það dugði ekki til. Þjóðverjar áttu að vera löngu búnir að klára leikinn þegar þeir fengu tækifæri til þess en þess í stað gyrtu Spánverjar sig í brók og unnu nokkuð þægilegan sigur.

Þetta er áfall fyrir Heiner Brand landsliðsþjálfara sem hefur ekki náð miklu út úr sínum mönnum á síðustu stórmótum.

Smelltu hér til að opna Boltavaktina: Spánn - Þýskaland.

Staðan, úrslit og leikjadagskrá HM.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×