Handbolti

Höfum ekkert unnið enn á HM

Eiríkur Stefan Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarmaður hans.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og Óskar Bjarni Óskarsson, aðstoðarmaður hans. Fréttablaðið/Anton
Óhætt er að segja að íslenska landsliðið í handbolta líti vel út fyrir HM í Svíþjóð sem hefst nú á fimmtudaginn. Ísland vann sterkt lið Þýskalands í báðum æfingaleikjum liðanna í Laugardalshöll um helgina, þann síðari á laugardaginn, 31-27.

„Þetta gekk mjög vel," sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og bætti við að liðið hefði lagt grunninn að báðum sigrunum með frábærum varnarleik.

„Við þurfum hins vegar að æfa hann enn betur fram að móti og svo ætlum við okkur að vera klárir með eitt varnarafbrigði til viðbótar og hafa til vara," sagði hann. „Það er gott að vita að við getum spilað fína vörn. Engu að síður þurfum við að nota dagana fram að móti mjög vel og okkur bíður nú það erfiða verkefni að halda einbeitingunni góðri og fylgja þessum góðu leikjum gegn Þýskalandi eftir. Við þurfum líka að skoða sóknarleikinn betur þar sem það komu kaflar í báðum leikjum þar sem sóknin datt niður hjá okkur. Það er enn margt sem við getum bætt í okkar leik."

 

Nítján á æfingunum í dagNæsta verkefni Guðmundar verður að ákveða hvaða sextán leikmenn hann mun velja úr nítján manna æfingahópnum til að fara til Svíþjóðar. „Ég er enn að hugsa málið og reikna með því að taka morgundaginn [í dag] í að hugsa málið. Ég verð með allan hópinn á báðum æfingum dagsins og ákveð mig eftir þær. Ég er kominn nálægt niðurstöðu en er enn að hugsa málið."

Hann segir þetta vissulega vera jákvætt vandamál að hafa úr svo sterkum hópi að velja. „Það þarf engu að síður að taka rétta ákvörðun og það er í mörg horn að líta. Þetta snýst ekki endilega um hvaða leikmenn eru bestir hverju sinni heldur hvað nýtist liðinu best. Allir nítján geta farið með út en ég þarf að finna út úr því hvaða sextán leikmenn skapa bestu liðsheildina og virka best saman, bæði í vörn og sókn."

 

Ungverjarnir virðast afar sterkirFyrsti leikur Íslands á mótinu verður gegn Ungverjalandi á föstudaginn. Ungverjar virðast mæta til leiks með afar sterkt lið en þeir báru sigur úr býtum á æfingamóti í Póllandi um helgina.

„Ég er nú með upptökur af þremur leikjum Ungverja í höndunum og erum við byrjaðir á að greina þá," sagði Guðmundur. „Það er alveg ljóst að þarna er gott lið á ferðinni og betra en ég og margir aðrir bjuggust við. Í liðinu eru öflugar skyttur, frábærir hornamenn og góðir línumenn. Þetta er gott lið sem við þurfum að vera á varðbergi gagnvart. Það er vissulega margt jákvætt í gangi í okkar liði líka en við þurfum að nýta tímann fram að leik mjög vel."

 

Löng og grýtt leið fram undanÁhorfendur troðfylltu Laugardalshöllina um helgina og voru með mikil læti á leikjunum, strákunum til stuðnings. Guðmundur varar þó við of miklum væntingum í garð liðsins.

„Það er gott að við spiluðum vel í þessum leikjum en þetta eru æfingaleikir og það ber að líta á þá sem slíka. Við höfum ekkert unnið á HM enn og fram undan er löng og grýtt leið þar sem við munum mæta mörgum erfiðum andstæðingum. Það er of snemmt að fara á flug."

Engin alvarleg meiðsli eru í íslenska leikmannahópnum en Ingimundur Ingimundarson sneri sig á ökkla í leiknum á laugardaginn og hvíldi því síðari hluta leiksins. Aron Pálmarsson sneri sig á föstudaginn en var einn besti maður Íslands á laugardaginn.

Ólafur Stefánsson var markahæstur íslenska liðsins í báðum leikjunum um helgina og markverðirnir Björgvin Páll Gústavsson og Hreiðar Levý Guðmundsson sýndu að þeir eru aftur komnir í sitt besta form. Reyndar stóðu langflestir leikmennirnir sig gríðarlega vel, ekki síst þeir Kári Kristján Kristjánsson og Oddur Gretarsson sem eru að berjast fyrir sæti í HM-hópi Guðmundar landsliðsþjálfara.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×