Viðskipti innlent

Rúm 20% mannaflans á bóta- eða veikindagreiðslum

Fjöldi þeirra sem samtals þáðu bóta- eða veikindalaunagreiðslur var tæplega 35.000 manns í desember 2010, eða sem svarar til 21,7% af mannafla.

Þetta kemur fram á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Þar segir að í árslok 2010 má ætla að örorkulífeyrisþegar hafi verið um 15.600 út frá tölum Tryggingastofnunar en þær nýjustu eru frá þriðja ársfjórðungi 2010.

Örorkulífeyrisþegar sem úrskurðaðir hafa verið með 75% örorku voru um 14.600 og endurhæfingarlífeyrisþegar um 1.000. Fjöldi örorkulífeyrisþega var nánast óbreyttur frá árslokum 2009 en endurhæfingarlífeyrisþegum fækkaði umtalsvert milli ára, eða um 20%.

Hlutfall örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega af mannafla (vinnuafli, samtölu starfandi manna og atvinnulausra), eins og Vinnumálastofnun áætlar hann, var 9,8% í desember 2010. Þótt fjöldi lífeyrisþega hafi nánast staðið í stað þá hækkaði hlutfall þeirra af mannafla úr 9,4% í 9,8% vegna fækkunar á vinnumarkaði, en Vinnumálastofnun áætlar að mannafli (umreiknaður í full störf) hafi verið um 160.000 í desember 2010 samanborið við tæp 168.000 í árslok 2009.

Að jafnaði voru 12.745 atvinnulausir í desember 2010 sem svaraði til 8,0% af mannafla. Samanlagður fjöldi atvinnulausra og örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega var því 28.345 eða sem svarar 17,7% af mannafla. Sé þeim bætt við sem voru fjarverandi vegna veikinda, sem svarað hefur til u.þ.b. 4% af mannafla að jafnaði undanfarin ár, og fjöldi þeirra því 6.400, þá nam fjöldi þeirra sem samtals þáðu bóta- eða veikindalaunagreiðslur tæplega 35.000 manns í desember 2010, eða sem svarar til 21,7% af mannafla.

Áætla má því að mannaflinn hafi skilað vinnu sem svarar til 141.000 fullra starfa í desember 2010 og er því hlutfall þeirra 35.000 sem þáðu bóta- eða veikindalaunagreiðslur hátt af þeim sem skiluðu vinnuframlagi mjög hátt, eða 25%.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×