Viðskipti innlent

Android framúr iPhone hjá Símanum á innan við ári

Það hefur tekið Android innan við ár að fara framúr iPhone þegar litið er til fjölda notenda og gagnamagnsflutninga hjá Símanum.

Í tilkynningu segir að Síminn hóf sölu á Android símum í mars á síðasta ári en salan á þeim rauk ekki upp fyrr en á síðari hluta ársins 2010 og sýna tölur að fjöldi notenda tvöfaldaðist á tímabilinu september á síðsta ári til janúar 2011.

Android er opið stýrikerfi frá Google sem tengir farsímann fyrirhafnarlaust við hvers kyns samskiptasíður, leiki og smáforrit á vefnum. Margir farsímaframleiðendur framleiða Android síma og eru notkunarmöguleikarnir nánast óendanlegir.

Til eru tugir þúsundir ef ekki yfir 100.000 smáforrita til þess að nota í Android símanum í ýmsum tilgangi, hvort sem er við vinnu eða í frístundum. Þar sem kerfið er opið getur hver sem getur og vill, búið til smáforrit fyrir Android og ný bætast við á hverjum degi.

„ Við höfum sjaldan séð nýjung á farsímamarkaði seljast svo hratt frá því að hún kemur á markað. Það kemur þó ekki á óvart að notkunin á Android sé fljót að ná þessum hæðum því margir framleiðendur framleiða Android síma og þeir eru því á breiðu verðbili þannig að allflestir ættu að geta eignast Androidtæki," segir Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans í tilkynningunni.

„Auk þess má leiða líkum að því að iPhone hafi kynnt og kennt heiminum á snjallsíma og því voru margir móttækilegir fyrir þessari nýju tækni þegar Android kom á markað."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×