Handbolti

Guðmundur: Verðum að nýta okkur þeirra veikleika

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar
Snorri Steinn hvetur hér félaga sína í íslensku vörninni.
Snorri Steinn hvetur hér félaga sína í íslensku vörninni. Fréttablaðið/Valli

Dagarnir eru langir hjá Guðmundi Guðmundssyni og þjálfarateyminu hans í Svíþjóð. Hann undirbjó lið sitt af kostgæfni í gær fyrir leikinn gegn Noreg í dag. Það var myndbandsfundur, æfing og svo annar fundur.

„Það verða þrír myndbandsfundir fyrir þennan leik og við erum aðallega að fara yfir okkar sóknar­leik. Við þurfum að bæta hann. Hann er of hikandi og við erum að taka of mikla áhættu í sóknarleiknum. Við erum að gefa slakar sendingar sem okkur er refsað fyrir. Það er allt of dýrt að fá öll þessi hraðaupphlaup á okkur. Það býr meira í okkur en við sýndum gegn Austurríki og stefnan er að laga það fyrir Noregsleikinn,“ sagði Guðmundur en hann segir alltaf þurfa að gera ákveðnar áherslubreytingar fyrir hvern leik.

„Það sem við þurfum að varast hjá Norðmönnum er samvinna Borge Lund og Bjarte Myrhol í sókninni. Við þurfum að bregðast rétt við leikkerfunum þeirra og svo eru þeir með hættuleg hraðaupphlaup sem þeir munu klárlega reyna að keyra þétt í bakið á okkur þar sem við skiptum tveimur mönnum úr sókn í vörn,“ sagði Guðmundur sem ætti að eiga einhver svör enda þjálfar hann bæði Lund og Myrhol.

„Það eru veikleikar í þeirra varnarleik og við ætlum að nýta okkur þá. Við munum koma með tvo til þrjá nýja hluti í okkar sóknar­leik. Norðmenn hafa reynst okkur erfiðir síðustu ár og því myndi ég segja að það væri helmingsmöguleiki á sigri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×