Viðskipti innlent

Vélaverkstæði Fjarðaáls er Fyrirmyndarfyrirtæki ársins

Á myndinni eru Þórður Valdimarsson, leiðtogi áreiðanleika hjá Miðgarði, sem tók við viðurkenningunni f.h. Alcoa Fjarðaáls og Þorvaldur Hjarðar umdæmisstjóri Vinnueftirlitsins á Austurlandi.
Á myndinni eru Þórður Valdimarsson, leiðtogi áreiðanleika hjá Miðgarði, sem tók við viðurkenningunni f.h. Alcoa Fjarðaáls og Þorvaldur Hjarðar umdæmisstjóri Vinnueftirlitsins á Austurlandi.
Miðgarður, vélaverkstæði Alcoa Fjarðaáls, hlaut viðurkenninguna Fyrirmyndarfyrirtæki ársins í ár fyrir afburða vel skipulagt og snyrtilegt verkstæði. Það er Vinnueftirlitið sem veitir þessa viðurkenningu.

Í tilkynningu segir að vikan 24. – 28. október er svo kölluð Vinnuverndarvika 2011, haldin í öllum Evrópuríkjum samtímis en Vinnueftirlitið er framkvæmdaraðili vikunnar á Íslandi. Markmiðið með vinnuverndarvikunni er að vekja athygli á ákveðnum þáttum í vinnuumhverfinu í þeim tilgangi að gera vinnustaðina heilsusamlegri og öruggari. Kastljósinu er nú beint að öryggi við viðhaldsvinnu.

Ráðstefna vikunnar fór fram á Grand Hótel Reykjavík í gær  og þar var tilkynnt um val á fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2011 en Vinnueftirlitið veitir viðurkenningu til fyrirtækis sem þykir skara framúr á því sviði sem er í kastljósinu ár hvert. Að þessu sinni fékk Miðgarður, vélaverkstæði Alcoa Fjarðaáls viðurkenninguna fyrir afburða vel skipulagt og snyrtilegt verkstæði.

„Þar er vinnuverndin höfð í hávegum og allur búnaður varðandi öryggismál til staðar. Áhættumat hefur verið gert og er unnið sérstakt áhættumat áður en farið er í stærri viðhaldsverkefni. Þeir standa sig sérstaklega vel varðandi alla þætti sem tengjast viðhaldsvinnu,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×