Viðskipti innlent

6,4 milljarða skuldum breytt í hlutafé

Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Klakka ehf., áður Exista.
Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Klakka ehf., áður Exista.
Hlutafé í Existu, sem nýverið var endurnefnt Klakki ehf., var aukið um 6,4 milljarð króna í lok ágúst. Allt hlutaféð var greitt með skuldajöfnun. Samkvæmt upplýsingum frá félaginu var um að ræða stóran hóp kröfuhafa, bæði innlendra og erlendra, sem lýstu kröfum sínum á Klakka/Existu fyrir allnokkru og hafa nú fengið umræddar kröfur viðurkenndar.

Klakki/Exista gekk í gegnum nauðasamning haustið 2010. Í honum fólst meðal annars að kröfuhafar félagsins breyttu um 10% af samningskröfum Existu í hlutafé og tóku félagið yfir í kjölfarið. Eftirstandandi samningskröfum var breytt í lán að fjárhæð 122 milljarðar króna. Ljóst er að kröfuhafarnir hafa afskrifað stórar fjárhæðir í endurskipulagningunni því samkvæmt síðasta birta ársreikningi námu skuldir Existu 486 milljörðum króna í lok árs 2009. Ársreikningur Klakka/Exista fyrir árið 2010 og árshlutareikningur þess fyrir fyrri hluta ársins 2011 liggja báðir fyrir. Framkvæmdastjóri Klakka/Existu vildi ekki afhenda reikningana þegar eftir því var óskað.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×