Viðskipti innlent

Ætla ekki að segja upp starfsmönnum

Brina kynnir ársreikninga bankans.
Brina kynnir ársreikninga bankans. Mynd/Pjetur
Íslandsbanki hagnaðist um átta milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Þetta er samdráttur frá sama tíma í fyrra. Sérkennilegar aðstæður í hagkerfinu sníða bankanum þröngan stakk. Launahækkanir hafa keyrt upp kostnað við rekstur.

„Ég er ánægð með þetta uppgjör, það sýnir að grunnreksturinn er að batna til langs tíma," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Hagnaður bankans nam rétt rúmum átta milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er rúmlega 2,7 prósenta samdráttur frá sama tíma í fyrra. Afkoman skýrist að hluta af því að vaxta- og þjónustutekjur drógust saman um átta hundruð milljónir króna á milli ára auk þess sem kostnaður jókst. Til samanburðar jókst hagnaður Arion banka um rúm 28 prósent. Hann nam 10,2 milljörðum króna á fyrri hluta ársins og einkenndist að stórum hluta af endurmati á lánasafni. Því var ekki að skipta hjá Íslandsbanka nema að litlu leyti.

Birna segir samningsbundnar launahækkanir hafa keyrt kostnaðinn upp auk þess sem starfsfólki hafi verið að fjölga í bakvinnslu, við endurútreikning á húsnæðislánum og í hugbúnaðardeild. Áætlun til næstu fimm ára felur í sér að kostnaður verði lækkaður, þó ekki með uppsögnum starfsfólks, að sögn Birnu. Hún reiknar með að starfsfólkið fái önnur verkefni þegar fram líði stundir og efnahagslífið taki við sér.

Viðmælendur Fréttablaðsins segja fjárhagsstöðu Íslandsbanka mjög sterka en grunnreksturinn sé að dala á milli ára. Það eigi sömuleiðis við um hina bankana, sem gjaldi fyrir gjaldeyrishöft og ríkisábyrgð. Þær sérstöku aðstæður sem hér ríki í efnahagsmálum valdi því að dregið hafi úr arðsemi á eigin fé Íslandsbanka frá sama tíma í fyrra. Birna segir þetta að hluta rétt en þrátt fyrir það sé arðsemin í takt við bæði það sem eigendur bankans og Bankasýsla ríkisins krefjist af honum. „Það er að verða erfiðara að bæta arðsemi þar sem eigið fé er orðið svo mikið," segir hún.

Birna segir að þrátt fyrir þröngar aðstæður sé ýmislegt í farvatninu. „Við erum með töluvert í pípunum. Það er verið að stýra lausafé með það fyrir augum að fá sem besta ávöxtun á það."

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×