Viðskipti innlent

Beið í 75 daga eftir ákvörðun Seðlabankans um smáaura

Lúðvík Júlíusson segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við Seðlabankann vegna umsóknar á undanþágu frá skilaskyldu samkvæmt gjaldeyrishöftunum. Lúðvík þurfti að bíða í 75 daga eftir ákvörðun bankans í máli sem snérist um 27 dollara eða rétt tæpar 3.000 kr.

„Það er greinilega ekki sama hjá Seðlabankanum hvort til þeirra leitar Jón eða séra Jón,“ segir Lúðvík og á þar við meðferðina sem Samherji fékk þegar fyrirtækið sótti um undanþágu frá gjaldeyrishöftunum. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja fjallar um það mál á vefsíðu fyrirtækisins í dag.

Lúðvík segir að hann hafi lagt í smávægilega fjárfestingu vestan hafs fyrir hrunið haustið 2008. Í desember s.l. fékk hann greidda 27 dollara í vexti af þessari fjárfestingu sinni.

„Ég sótti um undanþágu frá skilaskyldu á þessari upphæð enda myndi kostnaðurinn við að fá hana yfirfærða til Íslands éta hana upp að stórum hluta,“ segir Lúðvík. „Seðlabankinn hafnaði strax beiðni minni um undanþágu og þá leitaði ég til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins sem einnig hafnaði málaleitan minni en hvatti mig til að sækja um aftur til bankans.“

Lúðvík segir að hann hafi aftur sótt um og loksins í mars s.l. eða 75 dögum seinna fékk hann undanþágu frá skilaskyldunni á þessum 27 dollurum. Lúðvík er ekki sáttur við þessa málsmeðferð og hefur vísað málinu til Umboðsmanns Alþingis.

Seðlabankinn segir að þagnarskylduákvæði 15. greinar laga um gjaldeyrismál gera það að verkum að ekki er hægt að fjalla um einstaka aðila sem kunna að leita til Seðlabanka Íslands.


Tengdar fréttir

Tók Samherja tvo daga að taka út gjaldeyri af reikningi

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir að það hafi tekið ekki færri en 13 starfsmenn fjögurra fyrirtækja í tvo daga að taka út farareyri í evrum til handa þeim starfsmönnum Samherja sem sækja sjávarútvegssýninguna í Brussel í næstu viku. Upphæðin sem um var að ræða nam 7.400 evrum eða um 1,2 milljón króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×